Knattspyrnudeild Leiknis Fáskrúðsfirði

Titill

Færslur: 2007 Desember

30.12.2007 19:40

Jólamótið

Þá er lokið ellefta Jólamóti Leiknis í innanhúsknattspyrnu.  Mótið fór venju fremur vel fram og dómararnir voru óvenju lítið gagnrýndir.  Etv vegna þess að þetta er fyrsta Jólamótið þar sem undirritaður dæmir ekkert. 
Sigurvegarnir eru lið Hattar frá Egilsstöðum og unnu þeir alla leiki sína. Lið KFFB endaði í öðru sæti.  Einungis mættu 6 lið til keppni og var leikið í einum riðli. Tvö lið hættu við þátttöku vegna veðurs.  Knattspyrnudeild Leiknis þakkar þátttakendum, styrktaraðilum, áhorfendum og dómurum fyrir gott mót, einnig húsverðinum og síðast en ekki síst Rarik.
Lið Hattar 1.sæti.Lið KFFB 2.sæti.

30.12.2007 13:08

Nú er úti veður vott....

Veðrið er að gera okkur lífið leitt og nú þegar eru tvö lið dottin út úr jólamótinu og tvísýnt með það þriðja.  Eftir eru þá 5 eða 6 lið.  Ljóst er að við spilum í einum riðli í fyrsta skipti.  Ég hef hinkrað með að setja hér inn leikjaplanið því það var fyrirséð að þetta yrði vandamál.
Annars er höfuðverkurinn að það er ekkert um það að ræða að fresta mótinu, annar hentugur tími er einfaldlega ekki til.

28.12.2007 23:07

Tveir leikir í kvöld

Fyrsti leikur hins sameinaða liðs Leiknis og Fjarðabyggðar í m.fl.kvk. fór fram í kvöld gegn Sindra í Fjarðabyggðarhöllinni og lauk með sigri gestanna með 3 mörkum gegn 2. Fínasti fyrsti leikur og á sunnudaginn keppa stelpurnar aftur en þá gegn Hetti. Strax eftir leikinn spiluðu strákarnir og gekk þeim ekki eins vel og lokatölur 4-0 fyrir Sindra. Þess má geta að Palli og Kári Jónsynir spiluðu með Leikni aftur eftir nokkurra ára fjarveru.

Nú líður að því að þjálfaramál m.fl.kk. komist á hreint eða hvað?

27.12.2007 16:36

Leiknum frestað í dag

Vegna veðurs hefur verið ákveðið að fresta leiknum sem fram átti að fara í kvöld í m.fl.kvk. og verður hann í staðinn á sunnudaginn kl.19.

Á morgun, föstudag, ætla m.fl. kvk og karla hjá Sindra að koma í heimsókn. Kvennaleikurinn hefst kl. 17.30 og karlaleikurinn kl. 19.00.

Kv. Viddi

26.12.2007 16:58

Æfingaleikur hjá stelpunum á morgun

Á morgun, fimmtudag, spila stelpurnar í Leikni/Fjarðabyggð gegn Hattarstúlkum í Höllinni og hefst leikurinn kl. 18.30.

26.12.2007 13:15

Jólamótið!

Gleðileg jól Leiknismenn og aðrir lesendur síðunnar!
Hið árlega jólamót Leiknis í innanhúsknattspyrnu verður á sínum stað milli hátíðanna. Sunnudaginn 30. desember klukkan 14:00, verður blásið til leiks. Sömu reglur og í fyrra og árið þar áður, í hverju liði mega vera 4 sem léku í meistaraflokki karla á Íslandsmótinu sl sumar. Að öðru leiti eru það gömlu KSÍ-reglurnar um innanhúsknattspyrnu sem gilda - ekki futsal reglur.
Tekið er við skráningum í mótið í síma 894 71 99, til miðnættis 29. desember. Þátttökugjaldið er einnig það sama og í fyrra og hitteðfyrra, 10.000 kr á lið.
Sjáumst í jólaskapi 30. desember.
Magnús Ásgrímsson


ps mjög styttist nú í alvöru tíðindi af þjálfaramálum meistaraflokks karla - vonandi verður hulinn svipt af því máli mjög fljótlega

20.12.2007 18:07

Myndarlegir menn

Myndin af þessum stæðilegu mönnum þar sem þekkja má Loga ,,nörd" Ólafsson, Lúkas Kostic, Magnús Ásgrímsson og fleiri var tekin í höfuðstöðvum KSÍ á mánudaginn var. Í tilefni af 60 ára afmæli KSÍ fengu þessir og 34 aðrir silfurmerki sambandsins fyrir störf í þágu íslenskrar knattspyrnu.

20.12.2007 10:25

Deildarbikar!

Komin eru drög að leikjaniðurröðun í deildarbikar karla og kvenna, sjá hér http://www.ksi.is/mot/motalisti/?flokkur=111&tegund=61&AR=2008&kyn=%25
Ef þið skoðið þetta þá kemur í ljós að KSÍ notar nafnið Fjarðabyggð yfir bandalag KFF og Leiknis í meistaraflokki kvenna, sem við höfum nefnt Fjarðabyggð/Leikni.  Það er hins vegar ekki mjög þjált þannig að héðan í frá tökum við upp nafnið FL Group og málið er dautt.
Stelpurnar eru í riðli með Hetti, Völsungi og Tindastóli og leika 3 leiki, tvo í Höllinni og einn í Boganum.
Strákarnir eru með sömu liðum og Dalvík/Reyni og Magna að auki í riðli og leika því 5 leiki.  Tvo á Akureyri, tvo í Höllinni og gegn Hetti á hinum nýja Fellavelli.
Félögin hafa frest til 4. janúar til að gera athugasemdir við leikjaniðurröðunina.

Magnús Ásgrímsson

ps þjálfari hefur enn ekki verið ráðinn fyrir meistaraflokk karla.....


15.12.2007 19:15

Hraðmót í meistaraflokki karla

Hraðmót í innanhúsfótbolta - futsal - fór fram hér á Búðum í dag, laugardaginn 15. desember. Mótið var hin besta skemmtun og fór vel fram. Strákarnir okkar í Leikni stóðu sig eins og hetjur og unnu mótið, úrslit leikja urðu sem hér segir.

Leiknir - Höttur ..... 4 - 1

Máni - Valur .......... 2 - 1

Sindri - Leiknir ...... 1 - 1

Máni - Höttur ......... 1 - 4

Sindri - Valur ......... 4 - 5

Leiknir - Máni ........ 8 - 3

Höttur - Sindri ........ 3 - 1

Áður hafði Sindri burstað Mána 32 - 9 og Leiknir unnið Val 10 - 3.

Þetta þýðir að staðan er þessi þegar aðeins er eftir leikur Hattar og Vals, sem leikinn verður á Egilstöðum síðar:

Leiknir .......... 13 stig

Höttur ............. 9   - 

Sindri .............. 7  -

Valur ............... 3  -

Máni ................ 3  -

Fyrir hönd Leiknis léku í dag Vilberg markvörður, Pálus, Viðar, Ifet, Adnan og 3ja og 4ða flokks kjúllarnir Hilmar, Björgvin Stefán, Almar Daði og Ingimar. Adnan var elsti maðurinn til að skora fyrir Leikni í dag og gerði hann 5 mörk, Ingimar 4, Björgvin 3 og Hilmar 1.

Okkar menn í Val léku vel þegar þeir tók Sindra af öryggi.  Þar voru þeir Marínó og Jói í fararbroddi. 
Þessi úrslit þýða væntanlega Reykjavíkurferð hjá okkar mönnum í úrslitakeppni Íslandsmótsins sem fram fer síðustu helgina í janúar.

Magnús Ásgrímsson.

Myndir komnar í albúm.Leiknir og HötturEkki er gott að segja hvort þessi er að hlaupa á eftir bolta eða undan bolta.

14.12.2007 17:00

Íslensk knattspyrna

Það er margt skemmtilegt í bókinni í ár.  Þar kemur ma eftirfarandi fram.
Staðan í marka-einvígi Villa og Valdimars Kr Sigurðssonar er þannig að Valdi hefur skorað 183 mark í 282 leikjum í öllum deildum en Villi 175 í 290.  Þeir eru langmarkahæstir og eru báðir enn að spila, Valdi var með 11 mörk í sumar fyrir Skallagrím, en Villi 19 fyrir Leikni þannig að það dregur saman.  Villi hefur það með sér að vera yngri, fæddur ´72 en Valdi er ´69 módel.
Leikjahæsti maður Leiknis frá upphafi er Jón Hauks með175 leiki. 
Villi skoraði 1000 mark Leiknis í Íslandsmóti á móti Snerti í sumar og samtals hefur hann skorað 99 mörk fyrir félagið í Íslandsmótum.  Meira síðar.

Magnús ÁsgrímssonVilli í leik á móti Snerti í sumar.

12.12.2007 16:03

Æfingar

Meistaraflokksæfingar - karla - hefjast í Höllinni í næstu viku.  Æfingarnar verða miðviku- og föstudaga kl 19:30 - 21:00 og munu Villi og Óðinn hafa umsjón með þeim fyrst í stað.  Þeim sem eru að koma heim í jólafrí er bent á æfingar 19. - 21. og 28. desember og 2. og 4. janúar.  Auk þess verður æfingaleikur og jólamótið í innanhúsknattspyrnu, já og KR-æfingarnar á sunnudögum.
Nei, það er enn ekkert að frétta af ráðningu þjálfara. 

Magnús Ásgrímsson

11.12.2007 09:35

Frestanir og breytingar.....

Það eru endalausar uppákomur í sambandi við Íslandsmótið í innanhúsknattspyrnu.  Á síðasta sunnudag féll niður mót sem við áttum að halda í 5. flokki kvenna.  Fjögur lið áttu að mæta og afboðuðu tvö þeirra sig á laugardagskvöldi en á sunnudagsmorgun kom í ljós að hin tvö höfðu ekki frétt af tímasetningu mótsins og komu þau því ekki heldur.  KSÍ klikkaði á að senda út tölvupóst um tíma- og dagsetninguna og því fór sem fór.  Aftur verður reynt að halda mótið í janúar á nýju ári en dagsetning hefur ekki enn verið ákveðin.  Sama er með leik Leiknis/Vals gegn Sindra í 2. flokki karla sem vera átti um helgina, reynt verður að koma honum á í jólafríinu.  Þá var frestað leik Hattar og Leiknis í meistaraflokki kvenna, nýr leiktími ófundinn.  Loks er þess að geta turnering í meistaraflokki karla sem áætluð var á Egilsstöðum um næstu helgi verður leikin hér á Búðum.  Hefst hún kl 12:00 í húsi Ölvers og hvet ég alla til að mæta enda hin besta skemmtun að horfa á innanhúsbolta ekki síst þegar leikið er eftir hinum nýju futsal reglum.

Magnús Ásgrímsson

07.12.2007 12:55

ÍSLENSK KNATTSPYRNA 2007

Bókin Íslensk knattspyrna 2007 er komin út hjá bókaútgáfunni Tindi og er þetta 27. bókin í röðinni en sú fyrsta kom út árið 1981. Höfundur er Víðir Sigurðsson íþróttafréttamaður, en hann er okkur Búðstrendingum að góðu kunnur.

Bókin er 224 síður í stóru broti og prýdd rúmlega 300 myndum af leikmönnum og liðum úr öllum deildum og öllum aldursflokkum.
Meðal efnis:

Ítarleg umfjöllun um hverja umferð í Landsbankadeildum karla og kvenna og 1. deild karla.
Umfjöllun um 2. og 3. deild karla, 1. deild kvenna og utandeildakeppnina.
Nákvæm tölfræði um alla leikmenn.
Fjallað um Íslandsmótið í öllum yngri flokkunum.
Ítarleg umfjöllun um bikarkeppni karla og kvenna.
Ítarlega sagt frá landsleikjum Íslands í öllum aldursflokkum.
Evrópuleikjum félagsliða gerð góð skil.
Sérstakur kafli um íslenska knattspyrnumenn sem spila með erlendum liðum.
Fjallað um dómara, deildabikarinn, héraðsmótin, Íslandsmótið innanhúss.
Myndir af öllum meistaraliðum ársins í öllum flokkum.
Og allt annað sem tengist íslenskri knattspyrnu á árinu 2007.
Í bókinni er að finna öll úrslit í öllum leikjum á vegum KSÍ á árinu 2007, en Bókaútgáfan Tindur og KSÍ hafa samvinnu um birtingu þeirra.
Enn eitt árið ætti að vera hægt að finna mynd af Villa í bókinni, en hann er enn í 2 sæti yfir markahæstu menn Íslandsmótsins í öllum deildum frá upphafi.
 

06.12.2007 08:52

Uppreist eyru

Í gærkvöldi fór fram hörkuleikur í Íslandsmótinu í innanhúsknattspyrnu - futsal - hér á Búðum.  Félagar okkar í Val komu í heimsókn með Leiknismennina Marínó, Jóhann Örn, Kjartan Braga, Vigni, Lexa, Ævar og Óla innanborðs.  Leiknisliðið skipuðu eftirtaldir leikmenn; Vilberg, Paulius, Þorbergur Ingi, Adnan, Hilmar, Björgvin Stefán, Ingimar Guðjón, Ifet og Valur Sveins.  Ifet er fæddur 1966 og Ingimar 1994, þannig að 28 ára aldursmunur var á yngsta og elsta leikmanninum.  Gaman var að sjá Valla klæðast Leiknistreyjunni og vonandi á hann eftir að taka eins og eitt tímabil í henni.
Skemmst er frá því að segja að Leiknir var mun sterkari aðilinn og náði fram hefndum eftir tap í æfingaleik um daginn.  Lokatölur 10-3.  Þess má geta að hinn 13 ára gamli Ingimar setti 3. 

Magnús ÁsgrímssonYngstu leikmennirnir


Þarna eru þeir í jólasveinafötunum sínum

03.12.2007 14:50

Futsal

Leiknir lék sinn fyrsta leik í íslandsmótinu í futsal í gær sunnudag þegar Sindri kom í heimsókn með meistaraflokk kvenna.  Gestirnir voru ívið sterkari og sigruðu 6 - 2. 
Á miðvikudagskvöld, 5. desember kl 20:30 koma drengirnir í Val á Reyðarfirði í heimsókn og hefst þá íslandsmótið í meistaraflokki karla.
KSÍ er enn ekki búið að staðfesta leiktíma í yngri flokkunum en við ætlum að halda mót í 5. flokki kvenna og 2. flokki karla á næsta sunnudag, 9. desember og í 2. og 4. flokki kvenna laugardaginn 5. janúar.
Hið árlega jólamót í innanhússknattspyrnu verður haldið laugardaginn 29. desember.  Bara spurningin hvort við höfum það futsal eða gömlu gerðina.  Hvað segja lesendur síðunnar?  Atkvæðagreiðsla er hér með sett í gang.

Magnús Ásgrímsson

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40


Styrktaraðilar

Flugfélag Íslands
Orkusalan

KFFB

Um mig

Nafn:

Knattspyrnudeild Leiknis

Staðsetning:

750 Fáskrúðsfjörður

Tenglar

Eldra efni

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40