Knattspyrnudeild Leiknis Fáskrúðsfirði

Titill

Færslur: 2008 Maí

31.05.2008 22:46

Markaregn

Við Leiknismenn tókum í dag á móti Sindra í okkar fyrsta heimaleik í deildinni.  Leikið var í Höllinni og fengu þeir fáu áhorfendur sem mættu vel framreidda markasúpu.
Fjörið byrjaði á 22. mínútu þegar aldursforsetinn Gunnar Ingi, fékk dæmda á sig vítaspyrnu fyrir að faðma Uche óþarflega fast í teignum.  Hilmar, 15 ára guttinn steig á punktinn en Denis markvörður Sindra varði frá honum.  Hilmar hirti hins vegar frákastið og var að búa sig í að senda boltann í tómt markið þegar hann var straujaður aftanfrá og annað víti dæmt. Illvirkinn Stephen fékk hins vegar aðeins gult spjald en rautt hefði síst verið of dökkt fyrir tiltækið.  Nú steig Adnan Mesetovic,17 ára, fram og sett'ann.  Það tók Sindra innan við mínútu að svara, en rangstöðugildran stóð á sér og Seval Zahirovic slapp í gegn og skoraði.  Á 37. mínútu áttum við glæsilegt upphlaup sem endaði með því að Uche Asika slapp í gegn og skoraði.  Rétt fyrir hlé kom annað glæsilegt upphlaup, boltanum spilað snöggt fram með einnar snertingar boltum og Egill Steingrímsson þrumaði honum í netið.  Staðan í hálfleik 3-1 fyrir góðu gæjana.  Seinni hálfleikur var ekki eins góður af hálfu Leiknis.  Á 59 mínútu brutust Sindramenn upp hægri kantinn og Kristinn Guðlaugsson skoraði frá markteig eftir fyrirgjöf.  Sex mínútum síðar jafnaði varamaðurinn Sindri Elvarsson með góðu skoti og okkar menn í tómu tjóni.  En á 67. kom enn ein hröð og vel útfærð sókn sem lauk með því að Adnan skoraði sitt annað mark og kom Leikni í 4-3.  Á 78. mínútu kom síðasta mark leiksins, Emir Mutic átti þá fyrirgjöf af vinstri kantinum sem fór í háum boga yfir Óðinn í markinu og efst í hliðarnetið, óverjandi, en algjört slys.  Lokatölur 4-4 og verður það að teljast nokkuð sanngjörn niðurstaða, en grátlegt að missa það sem átti að vera unninn leikur niður í jafntefli.
Leiknisliðið:
Óðinn,
Steinar, Siggi, Guðni, Kjartan, Marinó,
Uche, Hilmar, Baldur, Adnan,
Egill
Edin kom inn fyrir Kjartan,
Aðrir á bekk; Almar, Nad, Bergvin og Dengsi.
Sóknarlínan átti öll góðan dag; Egill, Adnan, Uche og Hilmar.
Sindraliðið er nokkuð öflugt og vel skipulagt með gamla og reynda jaxla í bland við spræka unga stráka.  Seval var seigur á miðjunni og dældi boltum á sóknarmennina sem eru erfiðir við að eiga.
Fyrsta stigið í húsi og nú er bara að byggja ofan á þetta, Róm var hvorki brennd né byggð á einum degi.

30.05.2008 10:19

Knattspyrnu- og íþróttaskóli Leiknis

Knattspyrnu- og íþróttaskóli Leiknis


Mánudaginn 2. júní hefst hinn árlegi Knattspyrnu- og íþróttaskóli Leiknis. Skólinn verður með svipuðu sniði og undanfarin ár og hefjum við starfið á tveggja vikna námskeiði, 2. - 13.júní, þar sem knattspyrna og boltaleikir verða í aðalhlutverki. Að því loknu verður vikulangt leikjanámskeið, 16.- 20. júní.  Skólinn er ætlaður krökkum fæddum 1998 - 2002 (6. og 7.flokkur) og kostar hver vika 1.500 kr.  Námskeiðin eru alla virka daga frá 13:00 - 15:30 og skulu greiðast fyrirfram.  Foreldrum er bent á að láta börnin klæðast eftir veðri og senda þau með hollt nesti. Sjáumst eldhress á mánudaginn. 
                                 

                            Fh knattspyrnudeildar Leiknis,

Ásta Kristín Guðmundsdóttir, Björgvin Stefán Pétursson,  
Hilmar Freyr Bjartþórsson, Uchenna Asika
starfsmenn skólans

30.05.2008 10:15

Leiknir - Sindri

Á laugardag kl 14:00 tekur Leiknir á móti Sindra í annarri umferð D-riðils 3. deildar.
Þeir Egill og Páll verða komnir úr banni en Viðar spjaldakóngur aftur á móti í skammarkróknum.
Skrópum í siglingunni og mætum og hvetjum okkar menn!

30.05.2008 10:12

Bikarinn

Leiknir tapaði 3-1 fyrir Spyrni í Bikarkeppni KSÍ sl þriðjudag.  Mark Leiknis skoraði Uche.  Viðar fékk reisupassann og verður í banni gegn Sindra á laugardaginn.

26.05.2008 14:46

Bikarkeppni KSÍ

Leiknir tekur á móti Spyrni í Fjarðabyggðarhöllinni þriðjudagskvöldið 27. maí kl 20:00.
Leikurinn er í Bikarkeppni KSÍ.
Allir í Höllina!
Áfram Leiknir!

25.05.2008 00:59

Tap

Fyrsti leikur okkar Leiknismanna í 3ju deildinni í ár fór fram á Árskógströnd í dag.  Veðrið var fínt en völlurinn verri. 
Skemmst er frá því að segja að okkar menn léku vel og voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.  Áttum við nokkra góða sénsa, ma sláarskot, á meðan Dalvíkingar sköpuðu sér engin færi.  Á lokamínútu hálfleiksins dundi ógæfan yfir, Dalvíkingar fengu dæmt víti þegar boltinn virtist hrökkva í hönd Vignis þar sem hann var aleinn að leika út úr vítateignum.  1-0 fyrir Dalvík í hálfleik, þvert gegn gangi leiksins.  Í síðari hálfleik komu norðanmenn meira inn í leikinn eftir því sem á leið en við áttum 2-3 góð tækifæri.  Ma renndi Egill boltanum hárfínt fram hjá stönginni eftir að hafa unnið hann í teignum.  Þegar um 10 mínútur voru eftir kom saklaus stungubolti inn fyrir vörn Leikins sem Óðinn las vel og virtist hafa í hendi sér, en aftur kom lítil þúfa við sögu eins og í vítinu og Óðinn kiksaði algjörlega með þeim afleiðingun að handboltaspíran Heiðmar slapp einn í gegn og renndi boltanum í tómt markið.  Hörmulegt slys.
Á lokakaflanum fengu okkar menn tvö rauð spjöld, fyrst Páll þjálfari fyrir óvandaðar leiðbeiningar til dómaratríósins og síðan Egill fyrir brot.
Liðið:
                    Óðinn,
    Siggi Örn, Viðar, Guðni,
Vignir,                              Marinó,
            Svanur, Baldur,
Uche,                               Hilmar,
                       Egill,
Inná komu; Kjartan Bragi fyrir Sigga, Steinar fyrir Uche og Bergvin fyrir Marinó.
Aðrir á bekk; Nad og Ingimar.
Leikurinn i heild var góður, fínt spil og traust vörn á útivelli gegn liðinu sem spáð er toppsætinu.  Dómarinn var góður en línuverðirnir slakari.  Sérstaka athygli vöktu skipanir aðstoðardómara 1 til dómarans - rautt á þennan hljómaði um svæðið - tvisvar.  Aðstoðardómari sem kunnað hefði til verka hefði gefið dómara til kynna að hann vildi ræða við hann og skýrt honum frá málavöxtum og látið dómarann um ákvarðanir í stað þess að gefa honum fyrirskipanir svo allir heyrðu.
Dalvíkingar eru með sterkt og jafnt lið og eiga tvímælalaust eftir að berjast á toppi riðilsins.
Hjá Leikni var Marinó bestur, en einnig áttu Viðar, Egill, Svanur og Hilmar fínan leik.  Óðinn var öryggið uppmálað í markinu - utan einu sinni.  Gaman var að sjá Sigga aftur í eldlínunni og stóð hann vel fyrir sínu.  Kjartan Bragi átti fína innkomu. Þeir Uche og Steinar spiluðu sinn fyrsta alvöru leik fyrir félagið og lofa báðir góðu.
Nýju búningarnir eru flottir en ekki náðustu myndir af þeim, það kemur næst.

23.05.2008 13:32

Spá

Fótbolti.net birti í dag spá þjálfara og fyrirliða liðanna í D-riðli 3ju deildar um lokastöðu riðilsins.  Leikni er þar spáð 4. sætinu sem verður að teljast raunhæf niðurstaða.  Fyrir okkur er ekkert annað að gera en afsanna spána og blanda okkur í baráttuna um úrslitasæti.  Spáin er hér; http://www.fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=61745
Einnig birtu þeir spá þjálfara og fyrirliða allra liða í deildinni um hvaða lið komist upp í haust, þar trjóna Sindri og BÍ/Bolungavík á toppnum. 
Sjá það hér; http://www.fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=61747

23.05.2008 08:28

Bikarkeppnin

Í dag föstudag, leiða enn einu sinni saman hesta sína í kvennaflokki, Fjarðabyggð/Leiknir og Höttur.  Leikurinn er liður í Bikarkeppni KSÍ og hefst kl 17:45 í Höllinni.
Allir á völlinn!!!

22.05.2008 13:24

Landsbankamót Austra og Vals

Landsbankamót Austra og Vals verður haldið helgina 7.-8. júní,  í Höllinni á Reyðarfirði.  Mótið er fyrir 6. og 7. flokk drengja og stúlkna.

Áætlað er að 6. flokkurinn byrji kl 11:00, laugardaginn 7 júní.

Daginn eftir, sunnudaginn 8. júní leikur 7. flokkur og hefst mótið þá einnig kl 11:00.

Bendi foreldrum Leikniskrakka að hafa samband við tengiliðina í 6. og 7. flokki;

6. flokkur drengja: Ólafur Atli Sigurðsson

6. flokkur stúlkna: Guðný Elísdóttir

7. flokkur: Líneik Sævarsdóttir

Meira á heimasíðu Austra; http://austri.is/

22.05.2008 12:01

Dalvík - Leiknir

Fyrsti leikurinn Leiknis í 3. deildinni á tímabilinu verður leikinn á Árskógstrandarvelli á laugardaginn, gegn Dalvík/Reyni.  Lið okkar er mikið breytt frá fyrra ári og á pappírnum talsvert veikara.  Dalvíkingar hafa aftur á móti styrkt sig og er almennt spáð góðu gengi í sumar.  Við förum samt ekki norður til að horfa á, staðan verður í 0-0 þegar leikurinn hefst og 11 inná í hvoru liði. 

Stóra spurningin er hvort þeir endurtaki leikinn frá í fyrra með línuverðina.

Við mættum Dalvíkingum í Lengjubikarnum í vetur og lögðum þá 3-2 í Fjarðabyggðarhöllinni.  Þá skoruðu Egill, Adnan og Viðar fyrir Leikni. 

Spennandi verður að sjá Uche, nýja senterinn, í sínum fyrsta leik fyrir félagið.  Að lokum má geta þess að nýir keppnisbúningar sem Loðnuvinnslan gefur verða vígðir í leiknum.  Meira um það síðar.

21.05.2008 13:08

AÐALFUNDUR

Aðalfundur knattspyrnudeildar Umf Leiknis var haldinn í sal slökkvistöðvarinnar á Búðum í gærkvöldi, 20. maí.  Fundarsókn var ágæt, 19 fullorðnir einstaklingar mættu og tóku þátt í fjörugum fundi. 
Formaður flutti skýrslu síðasta árs samkvæmt venju og síðan voru reikningar ársins 2007 birtir.  Tap var á rekstrinum, annað árið í röð, nú upp á röskar 100 þúsund krónur.  Veltan jókst á milli ára um rúm 50% og var nokkuð á tíundu milljón.  Staða deildarinnar er þó ágæt og skuldir nánast engar.
Að loknum umræðum um reikningana var gengið til kosninga.  Þau tímamót urðu að Steinunn Elísdóttir og Jóhanna Hauksdóttir drógu sig út úr stjórninni eftir langt og farsælt starf.  Steina hefur starfað í stjórninni í nokkuð á annan áratug og verið aðaldrifjöðurinn þegar taka hefur þurft til hendinni.  Jóhanna yfirljósmyndari (hún heldur þeim titli) hefur starfað nokkuð skemur en hennar verður sárt saknað rétt eins og Steinu.  En þakka ykkur kærlega - þið verðið boðaðar á grillið.
Fundurinn var ekki tóm sorg, nýr stjórnarmaður - Erla Björk Pálsdóttir, var boðin velkomin með lófataki.  Fyrst um sinn verða því fimm í ráðinu; Erla Björk, Jóhanna Eiríksdóttir, Bjartþór Jóhannsson, Hans Óli Rafnsson og Magnús Ásgrímsson.
Fundinum lauk, með almennum umræðum og spjalli yfir rjómavöfflum.  Þar var margt rætt, ma;
- yngri flokka samstarfið í Fjarðabyggð og þróun þess,
- samstarfið við KFF,
- búningamál,
- samningamál við leikmenn,
- nýtt nafn á vellinum okkar, sem nú heitir Búðagrund.
- hversu beinn stuðningur sveitarfélagsins við Leikni er rýr - beint framlag Fjarðabyggar er uþb 50% af því sem Huginn fær frá Seyðisfjarðarbæ svo dæmi sé tekið.  Þá er ekkert samhengi í stuðningi sveitarfélagsins við KFF og stuðningnum við Leikni.  Ma fær KFF miklum mun hærri upphæð fyrir umsjón með Eskifjarðarvelli en Leiknir fyrir umsjón með Búðagrund.  Auk þess fær KFF greiðslur fyrir umsjón með sparkvöllunum og gerfigrasvöllunum í sveitarfélaginu......

20.05.2008 14:19

Aðalfundur

Ég minni á aðalfund knattspyrnudeildar Leiknis  þriðjudagskvöldið 20. maí kl: 20:30 í sal slökkvistöðvarinnar á Fáskrúðsfirði.
Venjuleg aðalfundarstörf og kaffiveitingar.
Allir velkomnir á fundinn.

20.05.2008 08:18

Íslandsmótið hafið!

Í gærkvöldi, mánudagskvöld, lék Fjarðabyggð/Leiknir sinn fyrsta leik í B-riðli 1. deildar kvenna.  Leikurinn fór fram á hinum glæsilega gerfigrasvelli í Fellabæ í fínu fótboltaveðri.  Hattarstúlkur komust yfir snemma leiks og hélst staðan, 1-0 fram undir lok leiks þrátt fyrir nokkur færi á báða bóga.  Okkar stúlkur fengu amk þrjú góð færi. Una slapp í gegn í upphafi leiks, en tókst ekki að skora.  Í lok fyrri hálfleiks slapp Sigurveig inn á teig eftir gott einstaklingsframtak en markvörður Hattar sá við henni. Um miðjan seinni hálfleik fékk Tinna Rut gott tækifæri rétt utan teigs, þegar Hattarmarkvörðurinn var í sveppatínslu en skotið rataði ekki á rammann.
Undir lok leiksins skoruðu Hattarstúlkur tvö mörk og lokatölur 3-0.  Liðið:
Þórdís,
Hafrún, Guðbjörg, Guðbjörg Rós, Gréta,
Inga, Sigurveig, Ásta Kristín, Ingiborg, Ríkey,
Una
Inná komu Tinna, Rannveig og Svanhvít.

Dómari leiksins Magnús Jónasson stóð sig með stakri prýði og aðstoðardómararnir voru langt fyrir ofan meðallag mv Hött.  Áhorfendur voru hins vegar ákaflega fáir.  Reyndar er nokkuð langt frá Egilsstöðum í Fellabæ, en aftur á móti styttra til baka.
Sigur Hattar var sanngjarn en of stór. Okkar stelpur léku mun betur en í síðasta leik gegn Hetti og liðið virðist á réttri leið.
Þórdís markvörður skaraði fram úr en einnig lék Tinna Rut vel á miðjunni, eftir að hún kom inná. Í heild barðist liðið vel og vildi greinilega fá eitthvað út úr leiknum.  Það kemur bara næst.

15.05.2008 22:06

Undirskrift

Það var hátíðleg stund í Leiknishúsinu í gærkvöldi.  Þar var mættur föngulegur hópur stúlkna til að undirrita KSÍ-samninga.  Þær sem skrifuðu undir í gær voru; Ásta Kristín, Gréta Björg, Inga Sæbjörg, Sigurveig Sædís og Una Sigríður.  Samningar við fleiri leikmenn meistaraflokks kvenna eru í burðarliðnum.  Til hamingju stelpur.
Inga Sæbjörg dóttir Magnúsar búin að skrifa undir.Frá vinstri:  Inga Sæbjörg Magnúsdóttir, Sigurveig Sædís Jóhannesdóttir,
Ríkey Jónsdóttir, Gréta Björg Ólafsdóttir, Ásta Kristín Guðmundsdóttir og
Una Sigríður Jónsdóttir.

13.05.2008 23:06

Æfingar mfl. karla.

Æfingatímar mfl karla hjá Leikni:

Mánudaga 19:00 - 20:30

Þriðjudaga 19:00 - 20:30

Miðvikudaga 19:00 - 21:00

Fimmtudaga 19:00 - 20:15

Laugardaga 9:30 - 11:00

Allar æfingar eru í Fjarðabyggðarahöllinni fyrst um sinn.


Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40


Styrktaraðilar

Flugfélag Íslands
Orkusalan

KFFB

Um mig

Nafn:

Knattspyrnudeild Leiknis

Staðsetning:

750 Fáskrúðsfjörður

Tenglar

Eldra efni

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40