Knattspyrnudeild Leiknis Fáskrúðsfirði

Titill

Færslur: 2008 Ágúst

19.08.2008 13:07

Spyrnir - Leiknir

Í gærkvöldi lauk Leiknir þátttöku sinni í 3ju deildinni í ár.  Leikið var við Spyrni á Fellavelli, við fínar aðstæður.  Leikurinn var hins vegar ákaflega slakur að beggja hálfu og ljóst að liðin höfðu ekki að miklu að keppa.  Fyrri hálfleikur var tíðindalítill, þó fékk Uche algjört dauðafæri sem hann klúðraði. Halli fékk einnig ágætt færi en fór hjá sér þegar hann áttaði sig á því að hann var kominn inn í teig hjá andstæðingunum án þess að um fast leikatriði væri að ræða.  Spyrnismenn sköpuðu sér lítið, þó slapp framherji þeirra í gegn en Viðar stöðvaði hann og uppskar bleikt spjald og var tiltölulega heppinn með litinn á því.  Undir lok hálfleiksins fékk Halli tæklingu frá grófum framherja Hérsanna og varð að fara útaf í leikhléi. 
Seinni hálfleikur var ekki gamall þegar Hilmar átti fína stungusendingu á Uche sem setti í gírinn í eina skiptið í leiknum, stakk vörnina af og lék á matreiðslumanninn í markinu.  Þegar leið á hálfleikinn tóku Spyrnismenn að gera sig líklegri við mark okkar og jafnaði eigandi liðsins eftir að hafa þegið boð Leiknismanna um að skjóta óáreittur frá vítateigslínu.  Leikurinn fjaraði út og úrslitin 1-1, þar sem hvorugt lið átti meira skilið.  1/2 stig í hlut hefði verið sanngjarnt.
Leiknisliðið;
Óðinn,
Halli, Ingvar, Viddi, Marri,
Svanur, Baldur, Gísli,
Hilmar, Uche, Jói
Inná komu; Ævar fyrir Halla, Ingimar fyrir Baldur og Bergvin fyrir Hilmar.
Eins og oft áður var Marinó bestur í Leiknisliðinu.  Einnig komust Ingvar og Gísli þokkalega frá leiknum.
Spyrnisliðið er ungt og ágætlega spilandi.  Þeir verða vonandi með að ári, við eigum enn eftir að taka þá almennilega í karphúsið!

 

19.08.2008 10:42

4 - 5 flokkur kk.

Æfingin sem átti að vera á morgun (20/8)  kl. 15:30 fellur niður vegna leiks 4.fl. kk. á Húsavík.

16.08.2008 20:01

Nokkur ágæt úrslit!

Meistaraflokkur kvenna hjá Fjarðabyggð/Leikni unnu sinn annan sigur í sumar þegar þær lögðu Tindastól 1-0 fyrir norðan í gærkvöldi.  Þær endurtaka svo vonandi leikinn á morgun sunnudag, þegar þær mæta Tindastóli öðru sinni. 

4. flokkur karla A-lið tapaði 1-0 fyrir KA á Akureyri, en B-lið vann 2-1, þrátt fyrir að hafa misst markvörðinn útaf með rautt, einu marki undir.  Á morgun keppir A-liðið við Tindastól og B-liðið við Dalvík.

6. flokkur drengja keppti í úrslitum Pollamóts KSÍ fyrir norður- og austurland á Djúpavogi í dag.  Strákarnir unnu KA, gerðu jafntefli við Neista og töpuðu fyrir Þór og höfnuðu í öðru sæti.  Til hamingju strákar!

6. flokkur stúlkna keppti í úrslitum Hnátumóts KSÍ fyrir norður- og austurland á Akureyri í dag.  Þær unnu KS, en töpuðu fyrir KA og Hetti og höfnuðu í 3ja sæti.  Til hamingju stelpur!

Að lokum má get þess að 3. flokkur karla vann glæsilegan sigur á Þrótti R, 3-1 á fimmtudaginn var.  Annar sigurleikurinn í röð og liðið komið á skrið!

16.08.2008 19:13

Loksins umfjöllun

Á miðvikudaginn var gerðum við Leiknismenn okkur ferð á Seyðisfjörð og öttum kappi við Huginn í næst síðasta leik okkar í D-riðli 3ju deildar.  Leiknir var allan tímann betri aðillinn í leiknum og aðeins stórleikur markvarðar heimamanna hélt þeim á floti.  Meira að segja vallarþulurinn, sá eldheiti Huginsmaður Þorvaldur Jóhannsson, hafði orð á því í tetímanum að ,,spekingarnir" teldu Leikni hafa verið sterkari aðilann í fyrri hálfleik.
Staðan í leikhléi var 1-0 fyrir Huginn, en þeir náðu að skora seint í hálfleiknum eftir að klafs í teignum.
Í síðari hálfleik héldu Leiknismenn áfram að láta boltann ganga vel manna á milli og sköpuðu sér nokkur ákjósanleg færi.  Þvert gegn gangi leiksins skoruðu heimamenn úr skyndisókn um miðjan hálfleikinn, en nokkur rangstöðuþefur var af því marki.
Þegar um korter var eftir af leiknum lék Egill á Ljúba þjálfara Hugins við vítateigshornið sem kaus að taka Eskifirðinginn knáa niður.   Dómari leiksins, sem átti ekki sinn besta dag, sleppti hinum brotlega við spjald, sem var stórfurðulegt en gula hefði orðið að fylgja rautt enda búið að sýna sakamanninum fyrri litinn.  Úr aukaspyrunni varð ekkert en Egill varð að fara meiddur af velli.
Í næstu sókn á Hugins var hinsvegar engin miskunn hjá Magnúsi, Siggi braut á sóknarmanni og uppskar réttilega sitt annað gula.  Þetta var hins vegar þaulhugsað af Sigga. Fyrra kortið var hans fjórða í sumar.  Hefði það rauða ekki komið og hann þarmeð fengið sjálfkrafa bann í næsta leik, þá hefði hann verið dæmdur í bann sem hann hefði ekki getað tekið út fyrr en á Íslandsmótinu næsta vor.  Klókur strákur Sigurður.
Okkar menn efldust enn við mótlætið og uppskáru loks mark um fimm mínútum fyrir leikslok.  Varnarmaður Hugins varði þá markskot með hendi og Viðar skoraði af öryggi úr vítinu, hans fjórða mark úr víti í sumar.
Markvörður Hugins varði tvívegis vel á lokamínútunum og 2-1 tap staðreynd.
Liðið:
Óðinn,
Halli, Siggi, Ingvar, Marinó,
Baldur, Svanur, Gísli,
Uche, Egill, Jói,
Uche fékk slæmt asmakast í lok fyrri hálfleiks og kom Hilmar inná fyrir hann.  Viðar kom inn fyrir Gísla og loks Ævar fyrir Egil.
Liðið átti allt góðan dag og kom 4-3-3 bara vel út.
Síðasti leikur liðsins er á Fellavelli á mánudagskvöldið, 18. ágúst kl 19:00.

07.08.2008 23:45

Leiknir og Sindri

Sú von sem við Leiknismenn höfðum um að komast í úrslitakeppni þriðju deildar slökknaði í kvöld á Búðagrund, hvar við töpuðum 1-2 fyrir Sindra.  Úrslit riðilsins eru ráðin, Sindri og Huginn fara í úrslitin.
Leikurinn í kvöld var jafn, við pressuðum á köflum stíft en sköpuðum okkur ekki mörg færi.  Sindri komst yfir eftir korter, eftir hræðileg varnarmstök okkar manna.  Uche jafnaði á 30. mínútu, þeir Egill endurtóku mark númer eitt á móti Dalvíkingum; stunga og mark.  Staðan 1-1 í hálfleik og allt opið.  Í byrjun síðari hálfleiks gleymdu okkar menn sér í vörninni og einn Hornfirðingurinn laumaði sér fram fyrir  gæslumann sinn og renndi boltanum í netið eftir að því er virtist hættulausa fyrirgjöf.  Eftir þetta bættum við í sóknina en uppskárum engin opin færi en tvívegis var þó varið á línu eftir hornspyrnur og darraðardans í markteig Sindra.
Liðið:
Óðinn,
Halli (Ævar), Ingvar, Viddi (Hilmar), Siggi, Marri,
Uche, Svanur, Gísli (Baldur), Jói,
Egill (Gummi Úlfars)
 
Marinó átti enn einn stórleikinn fyrir Leikni og var besti maður vallarins.  Siggi, Jói og Egill áttu einnig ágætan leik. Í heildina var leikurinn ekki slæmur, hinsvegar kostaði þetta endurtekna einbeitingarleysi í vörninni okkur sigurinn.

Myndir Jóhönnu frá leiknum komnar í albúm.

06.08.2008 16:44

Leikur á morgun

Á morgun mæta strákarnir í m.fl. Sindra hér á Búðagrund og hefst leikurinn kl. 19.00. Leikurinn átti að vera á föstudaginn en var færður fram um einn dag.Við höfum þegar mætt Sindra tvisvar í sumar og hafa báðir leikirnir endað með jafntefli. Þessi leikur ræður líklega úrslitum um hvort við gerum atlögu að sæti í úrslitakeppninni þannig að nú er lag og mæta og hvetja strákana til sigurs.

Áfram Leiknir, áfram Leiknir
stöndum saman núna öll sem eitt.

Man einhver hvernig lagið byrjaði???

05.08.2008 14:46

Íþróttaskólinn!!

...verður á morgun, miðvikudag og á fimmtudaginn en frí á föstudaginn vegna Króksmótsins.
  • 1
Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40


Styrktaraðilar

Flugfélag Íslands
Orkusalan

KFFB

Um mig

Nafn:

Knattspyrnudeild Leiknis

Staðsetning:

750 Fáskrúðsfjörður

Tenglar

Eldra efni

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40