Knattspyrnudeild Leiknis Fáskrúðsfirði

Titill

Færslur: 2011 Júlí

28.07.2011 00:36

Baráttusigur

Við Leiknismenn tókum á móti Sindra frá Hornafirði á Búðagrund í kvöld.
Sindri var sterkari aðilinn framan af og skoruðu þeir umdeilt mark eftir um 10 mínútna leik.  Dómarinn lét það standa þrátt fyrir að aðstoðardómari hafi flaggað á sóknarbrot.
Um miðjan hálfleikinn skall hurð nærri hælum við Leiknismarkið. Zeval sóknarmaður Sindra slapp fram inn fyrir vörnin og fram hjá Óðni og upp að endamörkum. Renndi hann boltanum út í teig á félaga sinn en Björgvin Stefán varði skot félagans með tilþrifum.
Um miðjan hálfleikinn meiddist Siggi og varð að fara af velli, í hans stað kom Fannar Bjarki og færðist Svanur þá aftur í miðvörðinn en Fannar var djúpur á miðjunni.
Staðan í leikhléi 0-1.
Það var gjörbreytt Leiknislið sem kom inn á í seinni hálfleik. Reyndar voru gerðar tvær skiptingar, Ási og Leifur komu af velli en Ævar og Jóhann Örn komu inn á.  En aðal breytingin var sú að í seini hálfleik börðust menn um hvern einasta bolta og það skilaði sér.  Þegar rúmt korter var liðði af hálfleiknum vann Ævar aukaspyrnu rétt utan teigs vinstra megin.  Lexi (Alexander Freyr) stillti sér upp og smellti knettinum yfir vegginn og í Samúel í nærhorninu.  Rándýrt mark.
Eftir þetta var baráttan alsráðandi og færi á báða bóga.  Almar slapp í gegn hægra megin og virtist eiga að fá vítaspyrnu þegar markvörðurinn fór í hann án þess að ná til knattarins.
Skömmu seinna var mark dæmt af Sindra vegna rangstöðu og einnig bjargaði Marri á síðustu stundu.
Þegar skammt lifði leiks fékk Leiknir aukaspyrnu við miðlínu.  Fannar sendi inn á teig og þar reis rauðhærði turninn Svanur hæst og skallaði boltann yfir úthlaupandi markvörð Sindra.
Eftir taugatrekkjandi lokamínútur flautaði dómarinn til leiksloka og fyrsta tap Sindra í riðlinum og vonandi það síðasta, staðreynd.
Byrjunarliðið:
            Óðinn,
Kjartan, Björgvin, Siggi, Marri,
Óttar, Ási, Svanur, Leifur,
        Almar og Lexi,
Bekkur: Fannar, Ævar, Jóhann Örn, Vilberg, og Björgvin Snær.

Liðið í heild stóð sig frábærlega, baráttan til fyrirmyndar.
Af öðrum ólöstuðum stóð Björgvin Stefán sig best.

Vilberg og Baldur Smári voru frá vegna meiðsla og Björgvin Snær var með pest.
Næsti leikur er við Einherja á Vopnafirði eftir rúma viku og er það amk sex stiga leikur. Myndir í albúmi.

26.07.2011 17:31

Leiknir - Sindri

Mfl.kk

Leiknir - Sindri

Búðagrund

Miðvikudaginn 27. júlí
Kl. 20:00

Allir á völlinn!!

Í hálfleik verður dregið í happdrætti mfl. Leiknis

25.07.2011 11:43

Ótitlað

Athugið!!!

Frí á samæfingum frá og með þriðjudegi 26. júlí og til og með mánudegi 1. ágúst.

Frí í knattspyrnuskólanum og félagsæfingum á Búðagrund frá og með miðvikudegi 27. júlí til og með þriðjudegi 2. ágúst.

24.07.2011 10:20

2.flokkur

Drífðu þig fram úr rúmminu!
Búðagrund
Sunnudaginn 24.júlí
Kl: 12:00
B-deild

Fjarðabyggð/Leiknir/Huginn vs. Leiknir/KB


Frítt á völlinn
Mætum og styðjum strákana okkar!!

22.07.2011 14:46

Leiktækjagæsla á Frönskum dögum

Sæl
Þeir sem eiga að sjá um leiktækin á laugardeginum eru:

13.00-14.00  Una, Guðbjörg Rós og Björgvin Stefán setja upp tækin
14.00-14.45  Ríkey, Freydís, Ásta Kristín og Nína
14.45-15.30  Sunna, Steina, Klara og Arek
15.30-16.15  Björgvin Snær, Almar Daði, Óttar og Ingimar Guðjón
16.15-???    Una, Guðbjörg Rós, Björgvin Stefán og þeir sem voru á vaktinni á undan hjálpast við að taka saman.

Það er skyldumæting og það eitt að vera numinn burt af geimverum er lögleg afsökun fyrir fjarveru.

Sjáumst, 
Guðbjörg Rós

21.07.2011 21:15

Flýting.........

Stórleik Leiknis og pressuliðsins hefur verið flýtt til 
kl 18:30.
Staðurinn sá sami; Búðagrund !
Mættu!!!!!

19.07.2011 18:16

Pressuleikur

Á föstudagskvöldið 22. júlí verður háður pressuleikur á Búðagrund.  Þá mun lið Daða Dervic sem klúðraði leiknum á Grenivík svara til saka gagnvart pressuliði Magnúsar Ásgríms.
Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður hin besta skemmtun.  Leikið verður til þrautar.
Athugið, þetta verður hápunktur Franskra daga í ár!

Eftirtaldir hafa verið valdir í pressuliðið:
    Óðinn Ómarsson,
    Svanur Árnason,
    Arek Grzelak,
    Ingimar Harðarson,
    Jóhann Örn Jónsson,
    Leifur Guðjónsson,
    Snorri Egilsson,
    Fannar Pétursson,
    Ævar Valgeirsson,
    Ingi Ben,
    Guðmundur Arnar Hjálmarsson,
    Hallgrímur Ólafsson,
    Hilmar Bjartþórsson,
    Daði Steinsson,

Ef fleiri telja sig eiga erindi í liðið eru viðkomandi beðnir að hafa samband við undirritaðan í síma 894 71 99.

                     
                      Þessi verður í liði Daða og Vilbergs.          
   
             

16.07.2011 18:40

Töpuð stig
Úr fyrsta leik liðanna í sumar á Búðagrund.  Björgvin Stefán var fyrirliði í dag, en Svanur tók út leikbann.

Leiknir heimsótti Magna á Grenivík í dag og urðu okkar menn að sætta sig við jafntefli eftir að hafa verið yfir 1-3 þegar skammt var til leiksloka.
Leikurinn byrjaði fjörlega og skoraði Magni eftir 8 mínútur.
Baldur Smári svarði fljótlega og kom okkar mönnum svo yfir þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum.  Okkar menn voru mun sprækari og sluppu nokkrum sinnum í gegn um seina vörn Magna.  Lexi slapp einn á móti markmanni sem tók hann niður inn í teig, og þar áttum við að fá víti og rautt á hliðvörðinn, en ekkert dæmt.
Rétt fyrir hlé vék dómarinn síðan leikmanni Magna af velli og útlitið því fínt í hléi.  1-2, manni fleiri og miklu betri.  Ekki versnaði það þegar við fengum víti í upphafi seinni hálfleiks og Villi jók muninn í 1-3.
Við fengum mörg góð færi til að auka munin, ma Lexi tvö dauðafæri, en inn vildi boltinn ekki.

Einbeitingarleysi síðasta korterið olli því að Magnamenn náðu að setja tvö og jafna 3-3.  Hörmulegt að missa unninn leiks svona niður.

Liðið:
                        Björgvin Sn,
Kjartan, Sigurður Örn, Björgvin St, Marri,
                    Ási   og   Óttar (Fannar '46)
Almar (Ævar '46),    Villi,      Baldur (Snorri '59)
                            Lexi

Í heild átti liðið fínan leik og verðskuldaði meira en 1 stig út úr þessum leik. 

15.07.2011 16:36

Undirritun


Í gær fór fram formleg undirritun á samningi við stuðningsaðila Fjarðabyggðar/Leiknis vegna búningakaupða á yngri flokkana.  Eftirfarandi tilkynning var send á fjölmiðla í tilefni af því:

Fréttatilkynning frá yngri flokkum Fjarðabyggðar í knattspyrnu

Þann 14. júlí var undirrituð yfirlýsing  til staðfestingar á samstarfi Síldavinnslunnar hf, Alcoa Fjarðaáls hf. Launafls ehf., Olíverzlunar Íslands hf.,  Eskju hf., SÚN og yngri flokka Fjarðabyggðar í knattspyrnu. Undirritunin fór fram í Veiðiflugunni á Reyðarfirði, en aðilar yfirlýsingarinnar skuldbinda sig að vinna saman að því að efla tækifæri barna og unglinga í Fjarðabyggð til að æfa og leika knattspyrnu með sem bestri umgjörð. 

Öll lið yngri flokka Fjarðabyggðar munu keppa í búningum merktum fyrrgreindra fyrirtækja. Ljóst er að með þessum öfluga stuðningi styrkjast stoðir knattspyrnunnar í Fjarðabyggð og skapa svigrúm til enn frekari uppbyggingar. Stjórn yngri flokka Fjarðabyggðar þakkar fyrirtækjunum stuðninginn og hlakkar til að vinna að markmiðum yfirlýsingarinnar næstu árin.Mynd frá vinstri: Benedikt Jóhannsson, Eskju hf., Magnús Helgason, Launafli ehf., Gunnþór Ingvason, Síldarvinnslunni hf., Magnús Ásgrímsson, formaður yngri flokka Fjarðabyggðar, Guðmundur Bjarnason, Alcoa Fjarðaáli, Samúel Sigurðsson, Olíuverslun Íslands hf. og Guðmundur Ingvason, SÚN.  Framan við kallana eru nokkrir sprækir krakkar úr yngri flokkum Fjarðabyggðar í nýju búningunum.

15.07.2011 13:52

Nýjir leikmenn!

Við Leiknismenn höfum fengið ágætan liðsauka nú í júlíglugganum.  Til liðs við okkur hafa gengið:

Alexander Freyr Sigurðsson kemur á láni frá Fjölni í Grafarvogi en var framan af sumri á láni hjá KFF.  Lexi er tvítugur, uppalinn hér í Fjarðabyggð og lék nokkra leiki með Leikni í vetur.  Lexi er sóknarmaður en getur jafnframt brugðið sér í hliðið ef svo ber undir.
 
Leifur Guðjónsson kemur frá KFF, en hann er uppalinn hjá Gróttu á hinu lága Seltjarnarnesi.  Leifur er tvítugur miðvallarleikmaður.

Óttar Guðlaugsson kemur á láni frá Hetti.  Hann er Fellamaður, miðjumaður og vel upp alinn drengur.  Reyndar er þetta í annað skiptið á ferlinum sem Óttar kemur í Leikni, en hann skipti til okkar fyrir nokkrum árum til að spila með 3ja flokki í úrslitum Íslandsmótsins í Futsal. Óttar er 19 ára.

Snorri Egilsson kemur til okkar frá Breiðabliki.  Ritari þessa pistils veit fátt um drenginn annað en hann er rauðhærður (eins og reyndar Óttar) og er systursonur Ólafs Atla Sigurðssonar og enn í 2. flokki, 18 ára.

Velkomnir í Leikni drengir!

Þessir strákar verða allir löglegir og til taks á morgun þegar við eigum erfiðan leik á Grenivík gegn Magna. 

Sigurður Örn er einnig klár í slaginn, en Svanur tekur út leikbann og Humar er meiddur.  Þá er Ingi Ben hættur og Jóhann Örn í fýlu að eigin sögn.
Því er kærkomið að fá þennan liðsauka.

Áfram Leiknir!

15.07.2011 09:30

Sigrar

Annar og þriðji flokkur unnu fína sigra í gær.
3ji vann Val Rvík 3-0 á Búðagrund.  Það voru leikmenn nafna þeirra á Reyðarfirði sem sáu um markaskorunina; Birkir Einar gerði tvö og Magnús Seljan jr eitt.

Annar flokkur sigraði HK/Ými 3-2 á Eskifirði á sama tíma.  Þar voru markaskorarnir Pétur Aron Atlason, Marteinn Pálmason og Björgvin Stefán.

14.07.2011 10:39

Leikur á Búðagrund

Kl 18:00 í dag tekur 3. flokkur Fjarðabyggðar/Leiknis á móti Val Rvík á Búðagrund.
Á sama tíma leikur 2. flokkur Fjarðabyggðar/Leiknis/Hugins við HK/Ými á Eskifjarðarvelli. 
Mætum og hvetjum strákana!

12.07.2011 16:18

Mót á Búðagrund

Eitt af fjórum hraðmótum í Íslandsmótinu í 5ta flokki stráka verður háð á Búðagrund á morgun, miðvikudaginn 13. júlí.
Mótið hefst klukkan 13:00 og verður leikið þétt fram til kl 18:00.
Fjarðabyggð er með 4 lið tvö A og tvö B. 
Mætum og hvetjum strákana!

08.07.2011 10:34

Áfall

Draupni hefur dregið lið sitt úr D-riðli þriðju deildar.  Leikir liðsins falla því niður.  Þetta kemur sérlega illa út fyrir okkur því við vorum með fullt hús á móti þeim á meðan helstu keppinautar okkar um sæti í úrslitakeppni 3ju deildar, Magni og Einherji höfðu bæði lið tapað stigum á móti Draupni.

Einnig þýðir þetta að stórleikurinn sem verða átti á Frönskum dögum verður ekki, andstæðingurinn var Draupnir.

Það þýðir ekkert annað en bíta í skjaldarrendur, en við eigum aðeins eftir að leika við Einherja og Magna á útivöllum, samtals þrisvar.

06.07.2011 23:04

Sigur á Seyðisfirði

Leiknismenn gerðu góða ferð á Seyðisfjörð í kvöld og lögðu heimamenn í Huginn 0 - 3.
Leikurinn fór fjörlega af stað á þungum og blautum Seyðisfjarðarvelli. 
Snemma leiks slapp Almar í gegn hægra megin og alveg inn í teig.  Hann renndi óeigingjarnt fyrir á Baldur Smára sem kom á ferðinni og smellti boltanum í netið.
Ekki löngu seinna kom mark númer tvö.  Langur og að því er virtist hættulaus bolti kom í átt að marki Hugins.  Varnarmaður setti höfuðið í boltan og skallaði hann þannig að úthlaupandi markvörðurinn átti ekki séns, en Almar Daði var fyrstur til knattarins og renndi honum í autt markið.
Ekki var meira skorað í fyrri hálfleik.  Í leikhléi gerði Daði tvöfalda skiptingu, enda meiddust þeir Björgvin Snær og Ingimar Humar í hálfleiknum.  Inn á komu Óðinn og Jóhann Örn.
Seyðfirðingar náðu að setja nokkra pressu á Leiknismarkið í síðari hálfleik og mark virtist liggja í loftinu.  Vörnin hélt hins vegar og þegar á leikinn leið fjölgaði skyndisóknum okkar.  Markvörður Hugins sá tvisvar við Almari eftir að hann slapp einn í gegn.  Í þriðja skiptið sem hann slapp í gegn lék hann á markvörðinn en varnarmaður komst í veg fyrir hann og braut á honum.  Víti dæmt og fór Vilberg á punktinn og sett´ann örugglega.

Eftir þetta fjaraði leikurinn út og 3 stig í húsi.

Byrjunarliðið:
            Björgvin Snær,
Arek, Björgvin St, Svanur, Marri,
        Fannar og Humar
Ævar,         Villi,        Baldur,
                Almar

Óðinn og Jói komu inn fyrir Björgvin Snæ og Humar,
Síðan Ási fyrir Baldur og Kjartan fyrir Arek.

Í jöfnu Leiknisliði var vinstri bakvörðurinn Marri öflugastur.  Einnig áttu Almar, Fannar, Björgvin St og Svanur fínan leik. Almar átti þátt í öllum mörkunum en hefði gjarnan mátt skora eins og tvö í viðbót...

Huginsmenn léku ágætlega og finnst þeir örugglega verðskulda meira en ekkert út úr þessum leik. 

Dómaratríóið var fínt, gott að vita að við eigum uppvaxandi dómara sem leggja metnað í verkefnið.
Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40


Styrktaraðilar

Flugfélag Íslands
Orkusalan

KFFB

Um mig

Nafn:

Knattspyrnudeild Leiknis

Staðsetning:

750 Fáskrúðsfjörður

Tenglar

Eldra efni

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40