Knattspyrnudeild Leiknis Fáskrúðsfirði

Titill

Færslur: 2011 Ágúst

30.08.2011 15:49

Sumarið gert upp hjá meistaraflokki

Nú þegar tímabilinu hjá meistaraflokki karla er lokið er við hæfi að fara yfir stöðuna.
Það er ljóst að það markmið okkar að komast í úrslitakeppnina náðist ekki, þrátt fyrir að við höfum verið nálægt því.
Það eru nokkur ef..., sem hefðu getað skilað okkur í úrslitin.

Brotthvarf Draupnis var auðvitað vatn á myllu Magna og Einherja, en bæði félögin höfðu tapað stigum á móti Akureyrarklúbbnum, á meðan við áttum ekki í erfiðleikum með þá.  Eins lentum við í því að missa Baldur Smára í tveggja leika bann í leik sem síðan var strikaður út en bannið stóð.

Síðan var ótrúlegt af okkur að klára ekki fyrri leikinn á Grenivík, við vorum 3-1 yfir og manni fleiri þegar innan við korter var eftir og vorum auk þess búnir að fá þvílík dauðafæri....

Eins var slakt af okkur að ná ekki að vinna Einherja í sumar, þrjú jafntefli við þá var ekki nógu gott. 

Loks var ótrúlegt að Sindri skyldi missa niður unninn leik á móti Magna í næst síðustu umferðinni, manni fleiri í uppbótartíma...

En það þýðir ekkert að væla.  Við komum bara sterkari til leiks á næsta ári.  Ef við hefðum haft hópinn sem við höfðum í seinustu umferðunum allt sumarið hefði niðurstaðan orðið önnur.  

Við vonumst til að halda nánast öllum mannskapnum og að sjálfsögðu verður Daði áfram með liðið.
Lang stærsti hluti hópsins verður fyrir austan í vetur og því er ljóst að við verðum með góðan æfingahóp og full ástæða til að fara að hlakka til næsta tímabils. 

Rétt er að halda því til haga að þetta er fyrsta sumarið í mörg herrans ár sem við fáum ekki leikmenn erlendis frá til að styrkja hópinn.  Frá því Dragan Stojanovic kom til Leiknis árið 1998 hafa fram að þessu aðeins verið tvö sumur sem við höfum ekki fengið knattspyrnumenn frá Austur-Evrópu eða Bandaríkjunum til að styrkja okkur, þe sumurin 2000 og 2001.
Núna byggðum við nánast alveg á heimamönnum, þe leikmönnum uppöldum hjá Leikni og síðan frá Reyðarfirði og öðrum nágrannabyggðum.


Þessir spiluð vel í sumar eins og margir aðrir; Svanur, Björvin og Marri í leik á móti Huginn.

25.08.2011 10:56

Staðan hjá yngri flokkunum!

Þessa dagana eru ýmist síðustu leikir riðlunum í yngri flokkunum eða í úrslitakeppnir hjá þeim yngstu.

Um síðustu helgi voru úrslitin í Polla- og Hnátumótum KSÍ í 6ta flokki. 
Strákarnir kepptu á Akureyri og gekk þokkalega hjá A-liðinu, þeir unnu einn leik en töpuðu tveimur jöfnum leikjum.  B-lið átti hins vegar erfitt uppdráttar og tapaði sínum leikjum.
Úrslitin hjá stelpunum fóru fram í Neskaupstað og þar töpuðust allir leikirnir bæði hjá A- og B-liðunum.

Núna um helgina, 28.-29. ágúst, verða úrslitin í 5ta flokki stráka og stelpna.
Við fengum einn úrslitariðilinn í 5ta flokki stráka og keppir A-liðið okkar á Eskifirði.  Leikirnir eru kl 11:00 og 15:00 á laugardaginn og kl 11:00 á sunnudaginn.  Andstæðingarnir eru KR, KA og Víkingur R.
B-liðið keppir í Grafarvogi. Þar eru andstæðingarnir Fjölnir, Víkingur R og Haukar.
B-lið 5ta flokks stelpna keppir í úrslitum á KA-velli á Akureyri, gegn Þrótti R, Stjörnunni og KA.

4ði flokkur stráka missti af úrslitakeppninni vegna örlítið lakari markamunar en Þór, en liðið háði harða baráttu á toppnum við Þór og KA.
4ði flokkur kvenna er ekki á leiðinni í úrslitakeppni, en spilar sinn síðasta leik í íslandsmótinu á Vopnafirði í kvöld.

3ji flokkur stráka er búinn að tryggja sér annað sætið í sínum riðli í C-deild íslandsmótsins og fer þal í úrslitakeppni um að komast upp í B-deild.  Síðasti leikurinn í riðlinum er á sunnudaginn kl 14:00 á Eskifirði og taka þeir þá á móti Grindavík.  Liðið mætir KA í undanúrslitum 3. september og sigurvegarinn fer upp og í úrslitaleikinn daginn eftir.

3ji flokkur kvenna er enn í harðri baráttu um úrslitasæti eftir góðan sigur á Hetti á Búðagrund í vikunni 3-0.  Okkar stelpur eru einu stigi á eftir Hetti í öðru sæti og eiga bæði liðin eftir einn leik, heimaleik gegn Þór frá Akureyri um næstu helgi.  Staðan er nokkuð snúin því riðlarnir í B-deild 3ja stelpna eru þrír, því fara sigurvegarar riðlanna í úrslitakeppni og eitt lið með bestan árangur í öðru sæti.  Það eru hins vegar flókin vísindi því leikirnir í riðlunum eru mismargir og spennan því mikil.  En stelpurnar verða væntanlega að vinna Þór 2 á föstudagskvöldið til að eiga von um úrslitasæti.

2. flokkur karla er í harðri baráttu í B-deildinni og þurfa amk einn sigur í síðustu þremur leikjunum til að tryggja sæti sitt í deildinni.  Þeir eru með 15 stig eftir 15 leiki í 6. sæti 10 liða deildar.  Síðasti heimaleikur strákanna er á sunnudaginn kl 16:00 á Eskifirði, gegn Þrótti R.

Sem sagt, fótboltaveisla um helgina.  Allir á völlinn.

24.08.2011 17:03

Vilberg sló markametið!

Þau tíðindi urðu í síðasta leik meistaraflokks Leiknis á Grenivík á laugardaginn að Vilberg Marinó Jónasson náði þeim áfanga að verða markahæsti maður Íslandsmótsins í knattspyrnu frá upphafi.

Sló hann þar met Valdimars Kr Sigurðssonar, en Villi jafnaði það í leiknum við Huginn helgina á undan. 

Valdimar hefur átt metið í nokkur ár en lagði skóna á hilluna 2009.  Hann dró þá hins vegar fram aftur í ár, væntanlega til að reyna að verja metið, enda dróst það fram eftir sumri að Villi næði honum.

Fyrir tímabilið var Valdimar með 205 mörk, Vilberg 200.  Valdi setti 5 fyrir Kára frá Akranesi í sumar en Villi 12 fyrir Leikni þannig að staðan er núna Villi 212, Valdi 210.  Aðrir eru með mun færri....

Villi er ungur og sprækur enn og á eftir að bæta metið nokkrum sinnum á næstu árum.


Af þessum 212 mörkum hefur Villi skorað 123 fyrir Leikni í 132 leikjum.  Ef bikarleikir með Leikni eru taldir með þá eru mörkin 133 í 141 leik!

Það gerir rúmlega 0,94 mörk í leik.  Sem er frábært.


Til hamingju Villi.


Vilberg Marinó Jónasson

20.08.2011 21:59

Stórsigur á Grenivík

Leiknir og Magni mættust á Grenivík í dag, fyrir leikinn voru Magnamenn búnir að tryggja sér sæti í úrslitum 3.deildar og var það eins gott fyrir þá því þeir sáu ekki til sólar í dag.  Leiknismenn voru mun betri aðilinn allan leikinn og lokastaðan 1 - 5 fyrir Leikni.  

Leiknismenn byrjuðu af miklum krafti, og strax á 10. mínutu skoraði Baldur Smári eftir að Villi skallaði langasendingu inná vörn Magna innfyrir og Baldur kláraði vel.  Ekki þurftum við að bíða lengi eftir marki númer 2 var það keimlíkt því fyrra langur bolti kom inná vörn Magna, Villi skallaði boltann innfyrir vörnina og Baldur stakk varnarmenn Magna af og kláraði af öryggi.  Næsta mark kom svo á 24. mín  þá geystist Baldur upp vinstri kantinn og gaf fyrir þar sem Villi kom og lagði boltann í nær hornið.  Baldur fullkomnaði þrennu sína á 58. mín Villi sendi innfyrir og Baldur kláraði vel smurði boltann í vinkilinn fjær glæsilegt mark hjá Baldri. Á 70. mín dró svo aftur til tíðinda ,  Baldur gaf fyrir frá vinstri Ævar átti skot sem markmaðurinn varði út í teiginn og þar kom Villi og skoraði 5 markið.

Liðið:

Óðinn

Kjartan - Fannar - Siggi - Marri

   Jói-  Ási -  Leifur - Óttar

Villi  -   Baldur

Bekkur: Ævar, Björgvin Stefán, Björgvin Snær, Gummi og Almar

Vörnin hjá Leikni stóð fyrir sínu, öldungurinn í markinu var öruggur í sínum aðgerðum.  Reyðarfjarðargengið Kjarri, Siggi og Marri stigu ekki feilspor, og kjúklingurinn hann Fannar var spilaði mjög vel.  Ási spilaði djúpur á miðjunni og leysti það vel, Jói og Óttar spiluðu fyrir framan Ása og áttu sinn besta leik í sumar,  Leifur var fremsti maður á miðjunni og átti góðan leik.  Varnarmenn Magna réðu ekkert við dúettinn Villa og Baldur.

 

Villi skoraði sitt 212. mark.                                            

Baldur Smári gerði þrennu í dag.18.08.2011 12:26

Grill

Á morgun ætlum við að grilla klukkan 11.. Við hvetjum alla yngriflokka krakka sem hafa verið að mæta á æfingar í sumar til þess að mæta. 3flokkur-8flokkur. Grillaðar pylsur, djús og nammi!

Sjáumst þá...

15.08.2011 09:56

Fyrirtæki sem að gáfu vinninga..

Eftirtaldir aðilar gáfu vinninga í happdrætti meistaraflokks karla:

Hótel KEA,
Jarðböðin Mývatni,
Tærgesen,
Ívar Ingimarsson,
Sundlaugar Fjarðabyggðar,
Samkaup,
Pex,
Veiðiflugan,
Hjá Marlín,
Bensínorkan,
Kaffi Steinn,
Launafl,
Birta,
Brekkan,
Þvottabjörn,
Kaffihúsið á Eskifirði,
Fellabakarí,
Grillskálinn,
Subway,
Gallerý Snærós,
Café Sumarlína,
Byko,
Stjörnuhár,
Verkfærasalan,
N1,
Áprentun,
Hársnyrtistofan Herta,
Quiznos, 
Austurglugginn,
Golfkennsla Baldurs Jónssonar,
Shellskálinn á Egilsstöðum,
Lyfja,
Verkstæði Kötu,
Trick Verslun, 
Perlusól,
Capitano,
Saumakot.

Við þökkum þessum fyrirtækjum (og Ívari) kærlega fyrir vinningana. :)

14.08.2011 09:52

Leikur í 1. deild kvenna

Næstsíðasti leikur Fjarðabyggðar/Leiknis í 1. deild kvenna fer fram á mánudaginn 15. ágúst kl. 19.00 á móti Hetti á Vilhjálmsvelli. Þetta er síðasti leikur þeirra fyrir austan í sumar og því um að gera að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

12.08.2011 22:49

Myndir.

Mjög margar myndir eru komnar inn í albúm frá leik Leiknis og Hugins nú fyrr í kvöld. Njótið......menn snúa allavega á vellinum.

12.08.2011 22:30

Leiknir - Huginn

Í kvöld mættu Huginsmenn á Búðagrund, fyrir leikinn vissum við að þetta væri skyldusigur eða að við  værum dottnir úr baráttunni un að komast í úrslitakeppnina.

Leikurinn byrjaði vel og við pressuðu stíft að marki Huginsmanna og sköpuðum  nokkur fín færi án þess að klára þau. Þegar rétt rúmar 15 mín. voru búnar af leiknum meiddist Björgvin Stefán á ökkla eftir að hafa hreinsað boltanum útaf. Inná kom Almar og kláraði leikinn eins og hershöfðingi. Áfram héldu Leiknismenn að pressa að marki Hugins og það skilaði árangri þegar engin annar en Kjartan Bragi Valgeirsson stangaði boltann í netið. Eftir þetta vorum við óheppnir að bætta ekki við mörkum en Baldur Smári sundraði vörn gestanna hvað eftir annað og átti hættulega bolta fyrir markið sem þurfti bara að reka stórutána í svo yrði mark. Hættulegasta færi fyrrihálfleiksins fékk síðan Ævar þegar hann slapp einn inn fyrir en skaut í markmann Hugins. Í hálfleik var staðan 1-0. Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri hafði endað. Mikil pressa var að marki Hugins og aðeins var tímaspursmál hvenær næsta mark kæmi. Inn á milli áttu Huginsmenn þó fína spretti sem sköpuðu nokkra hættu en ein af betri mönnum leiksins Marinó Óli sá til þess með frábærum tæklingum að þeir jöfnuðu ekki leikinn. Um miðjan seinni hálfleikinn áttum við síðan fína sókn þar sem Ævar tók hjólhestaspyrnu af stuttu færi sem endaði í Villa og inn fór boltinn. Staðan 2-0. Eftir þetta komust Huginsmenn örlítið inní leikinn og skoruðu úr aukaspyrnu af 20 metra færi. Menn mis taugaveiklaðir eftir markið en þegar um 5 mín. voru eftir af leiknum skoraði Ævar fínt mark af stuttu færi og tryggði okkur 3-1 sigur. Sjaldan hefur bekkurinn hjá Leikni verið jafn sterkur og í dag og hefðu þeir allir getað byrjað inná, þetta er skemmtilegt "vandamál" sem þjálfarinn þarf að glíma við en enginn á öruggt sæti í byrjunarliðinu. Allir varamenn komu inná í dag og stóðu sig vel.

Menn leiksins voru klárlega bakverðirnir þeir Kjartan og Marinó.

Byrjunarliðið í dag:

Óðinn

Kjartan - Björgvin St. - Sigurður - Marinó

Óttar - Svanur - Fannar

Ævar - Vilberg - Baldur

Varamenn voru: Almar, Jóhann, Ási, Lexi og Leifur.

11.08.2011 11:05

Leiknir - Huginn


Leiknir - Huginn


Föstudaginn Kl. 19:00

Búðagrund

Allir á völlinn

03.08.2011 09:23

Happdrætti

Vinningur          Miði         Nafn

6                      123          Telma Ýr
45                    396           Þór Steinar (Ingimar Guðmunds)
33                    403           Ásdís Jóhannesdóttir
14                    508           Hermann Ísleifsson
44                    672           Birna Aldís Fernandez
10                    674           Sandra Hrönn Hafþórsdóttir


Þetta eru vinngingar sem eftir á að sækja.

02.08.2011 10:35

Færeyjaferð


Stelpurnar í 4. flokki Fjarðabyggðar.


Þann 7. júlí sl. héldu 20 stúlkur úr 4 flokki kvenna til Færeyja með Norrænu í æfingaferð.  Með hópnum voru fimm foreldrar ásamt þjálfara.  Bækistöðvar hópsins og æfingaaðstaða var í Skála.  Hjá knattspyrnufélaginu í Skála starfar íslenskur þjálfari, Hornfirðingurinn Birnir Hauksson, sem undirbjó komu hópsins, útvegaði æfingaaðstöðu, leiki og var hópnum til aðstoða ef greiða þurfti úr einhverjum málum.

Tíminn var vel nýttur og voru æfingar bæði á morgnana og síðdegis, en miðdegið notað til að skoða sig um í Færeyjum.

Sunnudaginn 9. júlí var sett upp stutt mót sjö manna liða og voru tvö lið frá Færeyjum og okkar hóp skipt upp í tvö lið.  Hvert lið spilaði tvo leiki, en innbyrðisviðureignum sleppt.  Markmiði með þessu móti var að hafa gaman af því að spila fótbolta eftir strangar æfingar.  Þessu skemmtilega móti var síðan lokið með pylsuveislu í boði íþróttafélagsins í Skála.

Síðdegis á mánudeginum var síðan aðalleikur ferðarinnar en þar spiluðu stelpurnar fullan leik við U-15 lið Færeyinga og stóðu sig frábærlega þó leikurinn endaði 3-1 fyrir Færeyingana.  Var ekki annað að sjá en æfingar undafarinna daga væru að skila árangri því barátta og samvinna einkenndi leik liðsins sem svolítið hefur vantaða upp á í leikjum sumarsins.  Frábær leikur hjá stelpunum og gefur markatalan ekki rétta mynd af gangi leiksins sem var jafn og spennandi allan tímann og Færeyingar undir mikilli pressu undir lok leiksins.

Æfingum var síðan haldið áfram á þriðjudag, en miðvikudagurinn fór í að ganga frá og koma sér til Þórshafnar í veg fyrir ferjuna heim.  Það var þreyttur hópur sem steig á land á Seyðisfirði að morgni 14. júlí, eftir skemmtilega og vel heppnaða æfingaferð.  Vonandi búa stelpurnar að þessu í þeim leikjum sumarsins sem eftir eru.  Frábær ferð hjá frábærum stelpum.

Bestu þakkir eru færðar til þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem studdu stelpurnar í þessari ferð sinni og gerði þeim kleift að fara hana.  Einnig er íþróttafélaginu í Skála og sérstaklega Birni Haukssyni færðar bestu þakkir fyrir góðar móttökur, lánið á aðstöðunni, undirbúning og snúninga sem óneitanlega fylgja komu svona hóps.

 

                                                                                Steinþór Pétursson

01.08.2011 14:03

Landsmót

Lokið er á Egilsstöðum glæsilegu Unglingalandsmóti, ULM 2011.
Leiknir átti þar þó nokkra keppendur í sundi, frjálsum og knattspyrnu.  Til hamingju allir keppendur.
Ég skora á fólk að stefna á næsta ULM sem háð verður á Selfossi að ári.

Við áttum enn fleiri starfsmenn en keppendur og var helgin vægast sagt annasöm hjá mörgum þeirra.  Starfsmenn okkar unnu við sundkeppnina, frjálsíþróttamótið, dansinn og dæmdu knattspyrnuleiki, auk þess sem Leiknir rak sölutjald, sjoppu, frá fimmtudagskvöldi til sunnudagskvölds, rúmar 14 klst á sólarhring.
  Allar deildir Leiknis stóðu saman að sölutjaldinu og eru menn þokkalega sáttir með söluna þó reiknað hafi verið með mun meiri sölu á samlokum, pylsum og þh. en salan á svokölluðu ,,glódóti" bætti það að nokkru upp.
Fyrir hönd knattspyrnudeildar þakka ég öllum sem hönd lögðu á plóg kærlega fyrir samstarfið og dugnaðinn.
  • 1
Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40


Styrktaraðilar

Flugfélag Íslands
Orkusalan

KFFB

Um mig

Nafn:

Knattspyrnudeild Leiknis

Staðsetning:

750 Fáskrúðsfjörður

Tenglar

Eldra efni

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40