Knattspyrnudeild Leiknis Fáskrúðsfirði

Titill

Færslur: 2007 Júní

30.06.2007 18:54

Myndir

Núna eru komnar myndir inn í albúmið, það var einhver villa í búnaði.

30.06.2007 01:00

Leiknir - Neisti 3 - 0

Í kvöld mættust á Fáskrúðsfjarðarvelli Leiknir og Neisti í 3.deild karla. Með sigri gátum við náð 4 stiga forskoti í riðlinum og því var mikið undir í kvöld. Neistamenn höfðu fyrir leikinn nælt sér í fjögur stig. Leikurinn hófst og strax í upphafi vorum við ákveðnari í okkar aðgerðum og settum góða pressu á þá. Það virkaði vel því á 9. mínútu skoraði Villi gott mark úr víti og svo á 16 mínútu skoraði Jói gott mark. Eftir þetta jafnaðist leikurinn talsvert og Neistamenn voru beittari en áður. Við vorum í raun stálheppnir undir lok fyrri hálfleiks þegar þeir áttu skalla í stöng en sem betur fer slapp það fyrir horn. Strax í upphafi seinni hálfleiks skoraði Villi sitt annað mark og við með leikinn í okkar höndum. Eftir markið gerðist ekki mikið en þó átti Sigurjón hörkuskot í slá. Leikurinn fjaraði út og öruggur 3-0 sigur staðreynd.

Þetta var ekki okkar besti leikur en 3 stig í sarpinn og fyrsta sætið tryggt í bili.

Liðið í kvöld var þannig að í markinu var ´Óðinn og í vörninn Guðni, Halli, Kenan og David. Á miðjunni voru Stephen og Paulius og á köntunum Jói og Rok. Sigurjón og Villi voru frammi. Á bekknum voru Hilmar, Konni, Beggi, Marri og Egill og komu þeir allir við sögu í leiknum.

Næsti leikur er gegn Snerti á Dúddanum fimmtudaginn 5. júlí kl.20.

29.06.2007 23:46

Myndir

Myndir frá leik Leiknis og Neista eru komnar inn í albúmið.28.06.2007 10:24

Leiknir - Neisti

Á morgun, föstudag, mæta strákarnir í m.fl. Neista hér á Fáskrúðsfjarðarvelli og hefst leikurinn kl. 20. Með sigri getum við náð 4 stiga forskoti í riðlinum og auðvitað kemur ekkert annað til greina. Neistamenn hafa verið að gera ágætis hluti og unnu m.a. Huginn um daginn og gerðu jafntefli við Vini og báðir þessir leikir á heimavelli þeirra. Enn eru margir leikmenn frá vegna meiðsla og það virðist ekki há okkur enn sem komið þó Blaz hafi bæst við meiðslalistann í leiknum gegn Fjarðabyggð á þriðjudaginn. Ég tók saman úrslit síðustu 16 leikja gegn Neista.

Útileikir

23. júní 2001                Neisti - Leiknir 1-4    (Villi 1, Rikki Garðars 1 og Árni Thor 1)
18. ágúst 2001            Neisti - Leiknir 4-4    (Villi 2 og Árni Thor 2)
15. júní 2002                Neisti - Leiknir 1-1    (Lukas)
12. júlí 2002                 Neisti - Leiknir 2-3    (Gummi 2 og Villi 1)
14. júlí 2003                 Neisti - Leiknir 1-5    (Samír 3, Villi 1 og Árni Geir 1)
13. águst 2004            Neisti - Leiknir 1-1    (Kenan)
5. ágúst 2005              Neisti - Leiknir 0-1    (Daði)
29. maí 2006               Neisti - Leiknir 0-1    (Villi)

Heimaleikir

21. júlí 2001                Leiknir - Neisti 2-2    (Björgvin már 1 og Rikki Garðars 1)
21. júní 2002               Leiknir - Neisti 3-1    (Lúkas 1, Viddi 1 og Villi 1)
31. júlí 2002                Leiknir - Neisti 6-0    (Villi 3, Björgvin Már 2 og Gummi 1)
16. júní 2003               Leiknir - Neisti 0-2    
12. ágúst 2003           Leiknir - Neisti 3-6    (Héðinn 1, Unnsteinn 1 og Viddi 1)
6. júlí 2004                  Leiknir - Neisti 2-1    (Villi 1 og Vladan 1)
15. júní 2005               Leiknir - Neisti 2-0    (Villi 1 og Jón Ingi 1)
20. júlí 2006                Leiknir - Neisti 3-0    ( Almír 1, Villi 1 og Hafliði 1)   

Samkvæmt þessu höfum við unnið Neista í 8 leikjum, 6 sinnum hafa liðin skilið jöfn og Neisti haft betur í tveimur. Villi virðist finna sig í leikjum gegn Neista og í þessum 16 leikjum skorar drengurinn 12 mörk.

Nú er bara að vona að veðrið verði gott og fólk fjölmenni á völlinn á morgun og hvetji strákana til sigurs.

27.06.2007 23:10

Jafntefli í gær

Stelpurnar í 5.fl.- A fóru í gær og öttu kappi við Sindrastelpur að Sindravöllum í Höfn í Hornafirði. Miðað við gang leiksins voru úrslit leiksins ekki sanngjörn en leikurinn endaði með 0-0 jafntefli. Ingimar Guðmundsson þjálfari stelpnanna sagði það hreint með hreinum ólíkindum að hafa ekki komið heim með sigur í farteskinu en svona er boltinn.

Í dag áttu lið Einherja/Hugins að mætast á Eskifjarðarvelli en leiknum var frestað til morguns og verður kl.16.00 í Fjarðabyggðarhöllinni.

Í dag var ákveðið að draga 4.fl.kvk. úr keppni vegna áhugaleysis og hversu fámennur flokkurinn er. Stelpurnar eru mikið í burtu í sumar vegna ferðalaga og nokkrar gefa ekki kost á sér lengur. Stelpurnar munu þó áfram æfa á fullu með m.fl.kvk. og án efa spila einhverjar leiki með þeim í sumar.

26.06.2007 23:19

Tveggja deilda munur?

KFF lagði Leikni með 4 mörkum gegn 1 í Fjarðabyggðarhöllinni nú í kvöld.  Leikurinn í kvöld var ágæt skemmtun en sigurinn of stór mv gang leiksins. Fyrstu 60 mínúturnar var jafnræði með liðunum en eftir 3 mark þeirra datt leikur okkar manna niður og þeir réðu ferðinni að mestu það sem eftir lifði leiks, þó okkar menn lifnuðu aðeins í restina.  David skoraði mark Leiknis úr aukaspyrnu rétt utan teigs - loksins þegar Gylfa Orrasyni þóknaðist að flauta á leikbrot KFF-drengja.
Vona að einhver skrifi nánari umfjöllun um leikinn, en að mínu mati var Jóhann Örn maður leiksins og einnig stóð Blaz sig vel í sínum fyrsta leik í byrjunarliði. 

Magnús Ásgrímsson

ps svar; varla.
Myndir komnar í albúmið.26.06.2007 11:13

Bikarinn!

Þá er komið að því, bikarslagurinn við KFF er í kvöld á Eskifjarðarvelli. Nágrönnum okkar hefur gengið feikivel í sumar og hafa aðeins fengið á sig 2 mörk í fyrstu deildinni og er uppskeran eftir sjö leiki; 5 sigrar og jafntefli og annað sætið er þeirra í dag.

Leiknir og Fjarðabyggð léku síðast saman í deildarbikarnum í vetur og er tapið í þeim leik það langstærsta í mótsleik sem Leiknir hefur mátt þola undanfarin 10 ár í það minnsta, 11-0. Lið Leiknis er nokkuð breytt frá þeim leik og hugarfarið vonandi gjörbreytt.

Nokkrar tölulegar staðreyndir;

Fyrsti leikur KFF í Íslandsmóti í knattspyrnu var gegn Leikni á Reyðarfjarðarvelli 26. maí 2001 og lauk honum með jafntefli 2-2 og skoruðu Vilberg og Sveinn Guðmundsson mörk Leiknis.

Stærsta tap KFF í mótsleik er gegn Leikni, 7-0 á Fáskrúðsfjarðarvelli 26. júlí 2002, þar sem Villi setti þrjú, Gummi Úlfars tvö, Böggi Már og Lúkasz eitt hvor.

Á árunum 2001-2004 áttust félögin 14 sinnum við á Íslandsmótinu, Leiknir vann 5 af þessum leikjum, tvisvar urðu jafntefli og 7 sinnum fór KFF með sigur af hólmi.
Í bikarnum hins vegar hafa félögin leikið tvívegis, 2001 og 2004 og vann KFF í bæði skiptin, 0-2 og 1-2.  Það er þjálfarinn og framherjinn geðþekki Vilberg Marínó sem skoraði þeirra eina bikarmark sem við höfum sett á þá.

Frá árinu 2004 hafa félögin aðeins leikið tvo opinbera leiki, í deildarbikarnum, jafntefli 2-2 í Boganum í fyrra og síðan vann Fjarðabyggð eftirminnilega í vetur.

Dómari leiksins er West Ham aðdándinn góðkunni Gylfi Þór Orrason og honum til aðstoðar Magnús Jónasson og Viggó Skúlason.

Þá er það bara spurningin, hvernig fer í kvöld?

Áfram Leiknir!

Magnús Ásgrímsson

26.06.2007 11:00

Visabikar karla

Þriðjudagurinn 26. júní kl. 20.00

Eskifjarðarvöllur

Visabikar karla

Fjarðabyggð-Leiknir

Nú er komið að því að sýna heimamönnum að leikurinn í Lengjubikarnum í vetur var ekkert annað en kraftaverk. Fjölmennum á völlinn og styðjum strákana til sigurs. Áfram Leiknir!!

25.06.2007 23:33

Höttur - Leiknir 3-1

Í kvöld mættum við Hetti á Vilhjálmsvelli í 1.deild kvenna og með sigri áttum við möguleika á að ná 3 sæti riðilsins þannig að gulrótin var til staðar. Við lögðum leikinn þannig upp að pressa hátt upp á völlinn eins og gekk vel á móti Fjarðabyggð um daginn en það byrjaði ekki gæfulega fyrir okkur því strax eftir 40 sek. skora heimastúlkur eftir sofandahátt í vörn okkar. Markið var eins og köld vatnsgusa í andlitið á okkur. Eftir það vantaði mikið uppá hjá okkur og eins og allan vilja, ákveðni og þor vantaði í stelpurnar. Við vorum ekki að spila boltanum  og vorum gera mistök varnarlega sem kostuðu okkur tvö mörk til viðbótar. Við fengum ekki mörg færi í fyrri hálfleik en reyndar átti Chantelle skot í slá úr aukaspyrnu. Í hálfleik gerði ég breytingar á liðinu og leikkerfinu.  Seinni hálfleikur gekk betur en við áttum í miklum vandræðum með að finna framherja okkar og sóknir okkar voru ekki nægilega beittar. Við náðum þó að minnka muninn þegar Chantelle skoraði beint úr aukaspyrnu og hélt ég að það virkaði sem vítamínsprauta á stelpurnar en því miður var ekki svo. Lokatölur 3-1 Hetti í vil.

Við verðum bara að bíta í það súra í dag og morgun og snúa okkur svo að næsta leik sem er gegn Tindastól hér á Fáskrúðsfjarðarvelli eftir 10 daga. Miðað við leik okkar í kvöld verðum við að bæta okkur talsvert til að eiga möguleika á hagstæðum úrslitum úr þeim leik. En það þýðir ekkert að væla þó tilefni sé til en svona er bara boltinn.

Liðið í kvöld var þannig að í markinu var Alma. Í vörninn voru Gréta, Ásta, Guðbjörg og Ríkey. Á miðjunni Chantelle, Kirsty og Lynda og á köntunum Ingiborg og Tanja. Una var í fremstu víglínu. Elva, Arna, Bergdís og Inga komu allar inn í seinni hálfleik en Kristrún kom ekki við sögu.

Ég er ekki vanur að væla í dómurum að neinu viti og ætla ekki að gera það hér en ég get þó ekki orða bundist yfir strákunum á línunni. Ekki það að þeir hafi ekki verið að gera sitt besta og hafi ekki staðið fyrir sínu en félag með metnað eins og Höttur getur gert betur í þessum málum. Lynda orðaði það ágætlega í leiknum þegar hún spurði dómarann hvort að þessir drengir á línunni ættu ekki vera farnir í háttinn. Reyndar heyrðist mér á umræðum eftir leikinn að dómarinn og þeir sem koma að Hattarliðinu væru okkur sammála.

Á morgun er frí og svo æfing á miðvikudaginn en þá förum við yfir leikinn í rólegheitum.

Takk fyrir leikinn

Viddi

P.s. Í dag var sett heimsóknarmet á þessa ágætu síðu en 186 einstakir notendur skoðuðu síðuna í dag. Frábært og vonandi halda allir áfram að skoða síðuna sem við reynum að halda lifandi alla daga. Nú er bara spurning hvort einhverjir hafi ekki áhuga á að auglýsa á síðunni í frekari mæli.

24.06.2007 19:38

Pollamótið í 6.fl. o.fl.

Í dag fór Pollamót KSÍ fram í Neskaupstað. Mótið var ekki eins stórt og ráðgert var því Neisti og Sindri drógu sig út á síðustu stundu. Í flokki A-liða unnu strákarnir okkar með miklum yfirburðum en fjögur lið voru skráð til keppni í þeim flokki. Í flokki B-liða voru tvö lið og spilaðir tveir leikir og höfðu okkar menn betur í þeim báðum. Frábær árangur hjá strákunum og nú bíður þeirra úrslitakeppni en ekki ljóst hvenær og hvar hún fer fram.

Á morgun kl. 20.00 mæta stelpurnar í m.fl.kvk liði Hattar en leikurinn fer fram á Vilhjálmsvelli. Eins og staðan í riðlinum er í dag eiga stelpurnar möguleika á að koma sér í þriðja sætið með sigri. Höttur er með 6 stig eftir 4 leiki og við með 4 stig eftir 4 leiki. Það er nokkuð ljóst að um hörkuleik verður að ræða enda hafa leikir þessara liða ávallt verið hörku leikir. Ég skoðaði úrslit síðustu 10 leikja þessara félaga.

22. júní 2002             Höttur - Leiknir  5-0
13. júlí 2002              Höttur - Leiknir 2-4  (Arna Rut 2, aðra skorara vantar á skýrslu)
15. ágúst 2002         Leiknir - Höttur 4-2   (Arna Rut 3 og Bryndís Reynis 1)
1. júlí 2003                Höttur - Leiknir 2-1 ( Una 2 )
28. maí 2005            Leiknir - Höttur 1-3 ( Una )
29. júní 2005             Höttur - Leiknir 2-1 ( Una )
28. júlí 2005              Leiknir - Höttur 1-5 ( Sigurveig )
15. júní 2006             Leiknir - Höttur 1-1 ( Ingiborg)
15. júlí 2006              Höttur - Leiknir 3-0
10. ágúst 2006         Leiknir - Höttur 1-1 ( Sigurveig )

Samkvæmt þessu höfum við unnið tvo leiki, Höttur 6 leiki og tvisvar hafa liðin skilið jöfn. Annað athyglisvert í þessu er að nánast undantekningarlaust þá skorar Leiknir fyrsta markið í leiknum og vonandi verður ekki breyting þar á á morgun.

Hópurinn fyrir leikinn: Alma, Ríkey, Ásta, Guðbjörg, Arna, Kirsty, Chantelle, Lynda, Ingiborg, Una, Tanja, Inga, Bergdís, Elva, Gréta og Kristrún.

Farið verður með rútu og er mæting við Leiknishúsið kl.17.30.

Svo að lokum langar mig að minna alla krakka fædda ´97-´01 að á morgun mætir Ívar Ingimarsson landsliðsmaður í heimsókn í knattspyrnuskólann og um að gera að spyrja hann spjörunum, hvað maður þurfi að gera til þess að ná eins langt og hann o.fl. sem ykkur dettur í hug.

24.06.2007 15:55

Æfingaáætlun mfl. kk

Ný æfingaáætlun kominn.

Kv. Villi

23.06.2007 23:09

Pollmót KSÍ

Á morgun fer Pollamót KSÍ fram í Neskaupstað og hefjast fyrstu leikir kl.12. Við sendum til leiks sameiginlegt lið frá Stöðvarfirði til Eskifjarðar og ber liðið nafnið Firðir en við kjósum þó að kalla það Fjarðabyggð. Hvet fólk endilega til að gera sér ferð í Neskaupstað og horfa á ungviðið.

Í dag mættust á Eskifjarðarvelli lið Austfjarða og Leifturs/KS/Dalvíkur í 3.fl.kk. Strákarnir sýndu ágætis leik og unnu með þremur mörkum gegn tveimur og skoraði Hilmar Freyr m.a. eitt mark okkar manna.

Svo styttist í tvo stórleiki hjá m.fl.kk og kvk. Á mánudaginn skella stelpurnar sér í Héraðið og etja kappi við Hött kl. 20.00. Á þriðjudaginn er svo komið að Visabikar karla á Eskifjarðarvelli en þar  mætum við Fjarðabyggð.

Knattspyrnuskólinn

Á mánudaginn kemur hefst nýtt tveggja vikna námskeið í knattspyrnuskólanum. Um er að ræða tveggja vikna námskeið með sama sniði og vanalega þ.e. er frá kl.13.00 - 15.30 alla virka daga og kostar kr. 1500 hvor vika. Hvetjum alla krakka fædda frá ´97 - ´01 að mæta því á mánudaginn kíkir landsliðsmaðurinn Ívar Ingimarsson í heimsókn og að sjálfsögðu má engin missa af því. Sjáumst hress og kát í knattspyrnuskólanum á mánudaginn.

22.06.2007 12:55

Úrslit gærdagsins

Í gær áttust við á Norðfjarðarvelli lið Fjarðabyggðar og Þróttar í 5.fl.kvk. Þróttarliðið er mjög sterkt í þessum flokki og endaði leikurinn með sigri þeirra með fimm mörkum gegn engu.

Lið Austfjarða í 4.fl.kk átti í gærkvöldi að mæta liði Þórs á Akureyrarvelli en þeim leik var frestað um óákveðinn tíma.

Um helgina er nóg að gerast en á laugardaginn spila drengirnir í 3.fl. Austfjarða við Leiftur/KS/Dalvík á Eskifjarðarvelli kl. 14 og ætla að sýna í hvað þeim býr eftir 7-1 tap gegn Hetti á miðvikudaginn. Á sunnudaginn fer svo Pollamót KSÍ fram í Neskaupstað og hefjast fyrstu leikir kl. 12.

21.06.2007 20:53

Góð mæting í gær

Í gær fóru stelpurnar í m.fl.kvk. og nokkrir fleiri yfir á Stöddann að planta í landi Ívars og vorum við í allt um 24. Við vorum að frá kl. 18 - 22 og kláruðum að planta um 6000 trjám þannig að nú eru 14.000 eftir. Í lokin voru allir mjög svangir og runnu grilluðu pylsurnar niður hver á eftir annarri. Þátttakendur eiga hrós skilið fyrir góða mætingu og mikinn dugnað enda ekki við öðru að búast þegar Búðingar eiga í hlut. Reyndar ber að þakka Ómari á Stöddanum sérstaklega fyrir að leggja hönd á plóginn.

 

20.06.2007 23:38

Úrslit dagsins

Í dag áttust við á Norðfjarðarvelli lið Þróttar og Fjarðabyggðar í 5.fl. kk. A-liðið tapaði 3-1 efti að hafa verið undir 2-0 í hálfleik. B-liðið tapaði í markaleik með sex mörkum gegn fjórum eftir að hafa verið undir 4-2 í hálfleik. Þess má geta að Þróttur og Fjarðabyggð senda sameiginlegt lið á N1-mótið á Akureyri sem fram fer 4. - 7. júlí.

Höttur og Fjarðabyggð áttust við í 3.fl.kk í kvöld á Vilhjálmsvelli. Úrslitin eru ókunn og óska ég eftir upplýsingum um þau.

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40


Styrktaraðilar

Flugfélag Íslands
Orkusalan

KFFB

Um mig

Nafn:

Knattspyrnudeild Leiknis

Staðsetning:

750 Fáskrúðsfjörður

Tenglar

Eldra efni

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40