Knattspyrnudeild Leiknis Fáskrúðsfirði

Titill

Færslur: 2007 September

19.09.2007 12:14

Veturinn laumast að okkur...

Í kvöld verður á Reyðarfirði fundur fulltrúa knattspyrnuráða Vals, Austra, Leiknis og Þróttar um vetrarstarfið í Höllinni. Væntanlega verða þar til drög að æfingatöflu yngri flokka félaganna. Síðan, að líkindum annað kvöld, verður fundur með fulltrúum félaganna og Fjarðabyggðar þar sem reynt verður að laga almenningssamgöngur í sveitarfélaginu að þörfum barna sem sækja æfingar í Höllinni.

Æfingarnar fara síðan af stað á fullu ekki seinna en um mánaðarmótin.


Magnús Ásgrímsson

06.09.2007 17:33

Myndir

Setti inn nokkrar myndir af leik Leiknis og Tindastóls sem var á þriðjudaginn. Þær eru nú dálítið mikið hreyfðar þar sem myndatökumaðurinn var frekar spenntur.

04.09.2007 21:27

Féllum með sæmd

Þá er knattspyrnusumrinu hjá Leikni lokið.  Við fellum út úr umspili um 5ta sæti 3ju deildar í kvöld gegn Tindastóli.  Leikurinn sem fluttur var í Höllin vegna roks á Búðagrund (ekki fyrir Rok) hófst með látum.  Eftir 4 mínútna leik lá boltinn í marki gestanna eftir að Rok hafði pressað markvörð þeirra vel. Sá ætlaði að hreinsa frá en spyrnti í Rok og af honum hrökk boltinn í markið.  Eftir um 14 mínútur komumst við í 2-0. Sigurjón stal boltanum af varnarmanni, slapp í gegn og renndi boltanum af öryggi í netið.  Eftir þetta lifnuðu gestirnir aðeins við og uppskáru vítaspyrnu upp úr miðjum hálfleik.  Unnar gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði spyrnuna.  Á þessum kafla sóttu liðin á víxl og eftir rúmlega hálftíma leik fengu Tindstælingar sitt fyrsta alvöru færi (fyrir utan vítið) og Dejan nokkur skoraði út því (með tárin í augunum).  Við þetta efldumst við aftur og sóttum hart að þeim á lokamínútum fyrri hálfleiks.  Í einni sókninni áttum við tvö stangarskot úr dauðafærum og síðan var bjargað á línu en inn vildi boltinn ekki, þe ekki þá.  Í uppbótartíma náðum við síðan fallegri sókn og Rok batt snyrtilegan endahnút á hana.
Staðan 3-1 í hálfleik og við með leikinn í okkar höndum.  Við sóttum áfram af krafti í seinni hálfleik en gekk ekki alveg eins vel að skapa okkur færi.  Þó átti Sigurjón gott skot í stöng og dæmt var mark af Villa fyrir rangstöðu.  Einnig varði markvörður gestanna vel gott langskot frá Villa.  Þegar langt var liðið á hálfleikinn slapp Jói í gegn með því að klobba varnarmann sem launaði honum með því að krækja í hann og ræna hann jafnvæginu, en í stað þess að falla og fiska víti eins og reyndir refir í bransanum stóð Jói af sér atlöguna, en missti boltann. 

Í lokin var allt lagt í sölurnar til að ná inn fjórða markinu, fækkað í vörninni og fjölgað frammi.  Það leiddi til þess að Stólarnir sluppu í gegn rétt fyrir lok venjulegs leiktíma og potuðu inn einu marki.  Í þeirri sókn komust þeir óátalið upp með tveggja fóta tæklingu sem að öllu réttu hefði átt að kosta viðkomandi spjald og við hefðum enn átt séns. 
Byrjunarliðið:
                    Unnar
Pálus - Guðni - Shawn - Marínó
            Tobbi - Svanur
   Rok   -  Stephen  -  Sigurjón
                    Villi
Skiptingar:
Jói fyrir Sigurjón, Hafliði fyrir Tobba, Viddi fyrir Pálus og Vignir fyrir Rok.
Í heild átti Leiknisliðið skínandi dag og var miklu mun betra liðið á vellinum.  Vörnin var öflug og Unnar öruggur í markinu, þrátt fyrir að hafa örðið fyrir meiðslum í fyrri hálfleik þegar Robbi refur fiskaði á hann víti.  Aðrir stóðu sig einnig vel en menn leiksins voru Rok og Marínó.  Rok örugglega að spila sinn besta leik fyrir Leikni en Marínó hefur átt hvern stórleikinn af öðrum í úrslitakeppninni.
Tindstælingar eru ekki illa að því komnir að fara áfram, þeir voru mun sterkara liðið fyrir norðan á laugardaginn en í dag höfðum öll tök á að klára dæmið en það tókst ekki.  Það var okkar klaufaskapur.  Skandallinn var hins vegar að að sigra ekki Hamar - sem er mun slakara fótboltalið en td Leiknir, Huginn og Tindastóll.
Það er þó ljós punktur að enda sumarið á skemmtilegum og spennandi leik og falla með sæmd.

Ég þakka fyrir hönd knattspyrnudeildar Leiknis fyrir sumarið, stuðningmönnnum, styrktaraðilum, starfsmönnum, leikmönnum og öðrum.

ÁFRAM LEIKNIR!

Magnús Ásgrímsson

03.09.2007 15:18

Auglýsing

Fáskrúðsfjarðarvöllur

þriðjudaginn 4. september, kl 17:30.

Úrslitakeppni 3. deildar

Leiknir - Tindastóll

Áfram Leiknir!

   

03.09.2007 09:55

Tindastóll - Leiknir

Við Leiknismenn lékum á laugardaginn við Tindastól á Sauðárkróki í leiðindaveðri. Að öðru leyti er aðstaðan eins og Króksmótsfarar þekkja til fyrirmyndar á Króknum, æfingavellirnir þeirra tveir í fullri stærð mun betri en okkar vallardula.

Við lékum undan talsverðum vindsperringi í fyrri hálfleik en gekk illa að skapa okkur góð færi, stunguboltar og sendingar inn fyrir vörn Stólanna höfnuðu flestar aftan við endamörk eða í óöruggum höndum markvarðar þeirra. Tindstælingar áttu hinsvegar nokkrar góðar sóknir og voru lagnir að setja boltann inn fyrir flata vörn okkar og síðan eltu sprettharðir framherjar þeirra og sluppu amk tvisvar í gegn en Óðinn lokaði vel og skot þeirra hittu ekki rammann. Um miðjan hálfleikinn skoruðu síðan Stólarnir mark eftir hornspyrnu og en þar klikkaði dekkunin í teignum illa. Það sem eftir lifði hálfleiksins pressuðum við án þess að fá opin færi. Á lokamínútum hálfleiksins lendir Óðinn síðan illa á vinstri öxlinni og varð hann að fara af velli í hálfleik. Sigurjón Egils skellti sér þá í markmannsgallann og stóð sig mjög vel á milli stanganna í seinni hálfleiknum. Fátt markvert gerðist annars í síðari hálfleik. Stólarnir átt nokkur skot af löngu færi, einkum úr aukaspyrnum og settu þeir eina slíka í slá og niður. Þetta var það næsta sem þeir komust því að skora þangað til á 85 mín þegar okkar menn gleymdu sér aftur eftir hornspyrnu og óvaldaður Krækingur setti boltann í netið af stuttu færi. Við áttum fáar sóknir sem eitthvað kvað að í seinni hálfleik, þó fengum eitt gott færi en Hafliði náði ekki til boltans í dauðafæri eftir fyrirgjöf frá Villa.

Byrjunarliðið:

                   Óðinn

Halli - Guðni - Shawn - Marínó

         Stephen - Svanur

       Rok   -   Villi   -   Hafliði

                   Sigurjón

Skiptingar; Tobbi kom inná fyrir Óðinn í hálfleik og Sigurjón fór í markið, Jói kom síðan inn á fyrir Hafliða upp úr miðjum hálfleik. Ónotaðir varamenn; Pálus, Ellert og Bergvin.

Dómari leiksins reyndist ekki starfi sínu vaxinn og hefði það verið í þokkalegu lagi ef það hefði bitnað á báðum liðum jafnt en svo var ekki. Frá fyrstu mínútu dró hann taum heimamanna og dæmdi okkur í mesta lagi innkast þegar brotið var á okkar mönnum. Oft flautaði hann brot á Leikni þegar engu mannsbarni vestan Öxnadalsheiðar duldist að fyrst hafði verið brotið á Leiknismanni. Hins vegar töpuðum við ekki leiknum á dómaranum, við vorum einfaldlega einu til tveimur skrefum á eftir andstæðingunum í þessum leik.

En þetta er bara fyrri hálfleikurinn, þessi viðureign er ekki búin! Við munum veita Tindstælingum harða mótspyrnu hér á Búðagrund á morgun þriðjudag kl 17:30.

Allir á völlinn!

Magnús Ásgrímsson

  • 1
Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40


Styrktaraðilar

Flugfélag Íslands
Orkusalan

KFFB

Um mig

Nafn:

Knattspyrnudeild Leiknis

Staðsetning:

750 Fáskrúðsfjörður

Tenglar

Eldra efni

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 181
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1884270
Samtals gestir: 312916
Tölur uppfærðar: 21.1.2019 16:56:40